KOSNINGAEFIRLIT Í ÚKRAÍNU
Í
gær sunnudag fóru fram þingkosningar í Úkraínu. Sveitir
eftirlitsmanna, innlendra og erlendra, fylgdust með kosningunum og
var ég ásamt Karli Garðarssyni, alþingismanni, á vegum þings
Evrópuráðsins sem þarna var með all nokkurn hóp þingmanna í
samvinnu við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE/OSCE. Ekki
langt undan þeirri stofnun er oftar en ekki NATÓ að finna en
hernaðarbandalagið átti sína fulltrúa á undirbúningsfundum okkar í
Kænugarði, svo og Evrópusambandið. Eftirlitsnefndirnar sem
við áttum aðild að voru hins vegar á vegum Evrópuráðsins og
OSCE.
Breska ríkisútvarpið, BBC, sagði nú síðdegis að alls hefðu verið um
900 erlendir eftirlitsmenn að fylgjast með kosningunum.
Vel að eftirlitinu staðið
Karl Garðasson hafði einnig tekið þátt í undirbúningsfundum fyrr
í mánuðinum þannig að hann var ekki nýgræðingur að koma að
starfinu. Það átti hins vegar við um mig.
Ég hafði að vísu tekið þátt í kosningaeftirliti í Kosovo fyrir
mörgum árum ásamt Jóni Ólafssyni, prófessor á Bifröst og Finnboga
Rúti Arnarsson, frá utanríkisráðuneytinu. Til Úkraínu var ég hins
vegar að koma í fyrsta skipti.
Eftirlitsmenn fengu góða þjálfun í því að fylgjast með kosnigunum
og fór undirbúningur fram á maraþonlöngum fundum með fjölda
fyrirlestra tvo daga áður en kosningarnar fóru fram.
Frambjóðendum hent í ruslið
Í aðdraganda kosninganna voru dæmi þess að frambjóðendur yrðu
fyrir aðkasti, barðir og troðið ofan í ruslatunnu til að niðurlægja
þá og segja þar með á táknrænan átt að þeir væru úrhrak og ættu
heima á haugunum. Þegar við hittum fulltrúa flokkanna vakti ég
athygli á slíkum fregnum og minntist á að Symeneko formaður
Kommúnistaflokksins (sem sótti fundinn) hefði sjálfur
beinlínis verið barinn í ræðustól úkraínska þingsins. Einkum
voru það frambjóðendur kommúnista sem kváðust hafa orðið fyrir
ofbeldi en ásakanir um áreiti komu einnig fram hjá öðrum. Ég spurði
hvort hættan væri ekki sú, að yrðu stjórnmálamenn, sem væru
talsmenn umdeildra skoðana, fyrir ofbeldi, þá heyktist fólk á að
bjóða sig fram fyrir þann málstað þótt hugur þess stæði til þess.
Undir þetta var tekið. (http://ogmundur.is/umheimur/nr/7218/ )
Fjöldamorðin í maí
Því fer fjarri að hægt sé að alhæfa um ástandið í Úkraínu. Austustu héruðin, kennd við Donetsk og Luhansk eru í upplausn af völdum stríðsátaka enda fóru kosningar þar ekki fram með einhverjum undantekningum þó. Sama gilti að sjálfsögðu um Krímskagann sem í reynd er orðinn hluti Rússlands. Þá er ástandið sums staðar eldfinnt svo sem í hafnarborginni Odessa við Svartahaf. Hinn 2. maí var þar framið hryllilegt ofbeldisverk. Þá voru 48 einstaklingar brenndir til bana. Um var að ræða fólk sem vildi gera Úkraínu að sambandsríki - nokkuð sem þjóðernissinnar mega ekki heyra á minnst og nokkuð sem Evrópuráðið illu heilli tók afstöðu til í skýrslu sinni um Úkraínu á sínum tíma. Fólkið hafði leitað athvarfs í verkalýðshúsi þegar þjóðernissinnar gerðu aðför að því. Síðan var eldur borinn að húsinu og fólkinu meinuð útganga. Yfirlýsingar sumra fasista á úkraínska þinginu í kjölfarið voru ljótar. (Sjá: http://ogmundur.is/annad/nr/7093/ )
Vildu vanda sig við framkvæmd lýðræðisins
Ekkert af þessu sáum við í þingkosningunum nú. Í
höfðuborginni, Kænugarði eð Kiev, og héruðum suð-austur af henni,
þar sem ég hafði eftirlit með höndm ásamt spænskum þingmanni, var
alls staðar rólegt og friðsamlegt yfirbragð. Og hvað varðar sjálfa
kosninguna og talningu urðum við ekki varir við neitt annað en
snurðulausa framkvæmd og mikinn vilja fólks að standa sig í
stykkinu við framkævæmd lýðræðisins. Karl Garðarsson hefur skýrt
frá því að á einum kjörstað sem hann heimsótti hefðu heyrst hótanir
um uppþot og hafi sérsveitir lögreglunnar verið kallaðar á
vettvang. En þetta virðist hafa verið undantekning fremur en
reglan.
Ánægja með framkvæmdina
Á yfirlitsfundi í morgun áður en við hurfum á braut var farið yfir
framkvæmdina og sagði sænskur eftirlitsmaður sem hafði eins konar
yfirumsjón með höndum að hann væri ánægður með framkvæmd
kosninganna. Hnökrar hefðu verið til þess að gera litlir.
Nú verður ahyglisvert að fylgjast með framvindunni að
afloknum þingkosningunum.
Hvað svo?
Svo fór sem spáð var að flokkur Porosjenkós forseta fékk
mest fylgi og næstmest fékk flokkur forsætisráðherrans Yatsenyeks.
Porosjenkó segist vilja friðsamlega lausn í austurhluta Úkraínu en
forsætisráherrann hefur talað fyrir hernaðarlausn.
Öllum ber saman um að sríðið og afstaða til þess mun verði helsti
ásteitingarsteinn í úkraínskum stjórnmálum á komandi misserum og
síðan mun verða horft á hitt, hvernig muni takast að kveða
niður spillingu í landinu. Porosjenkó, forsetii, er sjálfur
auðkýfingur og verður fróðlegt að sjá hvort honum muni takast að
aftengjast hagsmunagæslu fyrir sig og sína líka. Allir helstu
ráðandi stjórnmálamenn í Úkraínu á undanförnum árum virðast
hafa tengst spillingu - mikilli spillingu.
Neðar í skotgrafirnar eða uppúr þeim?
Svo er hitt að það hefur ekki reynst nóg að hljóta lýðræðislega
kosningu einsog Janúkóvits sem kjörinn var forseti 2010
fekk að reyna. Kosning hans fékk góða einkunn eftirlitsmanna
en kosningin var engu að síður tvítekin til að tryggja að
allt væri með eðlilegum hætti. Í byrjun þessa árs var Janúkóvits
síðan steypt af stóli þótt nýar kosningar væru í sjónmáli.
Janúkovits vildi ekki aðlögun við Evrópusambandið og ekki
NATÓ inn á gafl. Það vildi risagranninn í Moskvu ekki heldur. Þess
vegna studdi ESB og NATÓ að lýðræðislega kjörinn forseti yrði
settur af með valdi. Og Moskva hélt suður á Krímskaga og inn í
austanverða Úkraínu. Þar við situr.
Spurningin er sú hvort menn grafi sig enn neðar í skotgrafirnar eða
takist að hefja sig upp úr þeim. Það væri óskandi að hið síðara
yrði ofan á.