CHOMSKY FJALLAR UM MESTA HRYÐJUVERKARÍKI HEIMSINS

Að undirlagi Barak Obama Bandaríkjaforseta var bandarísku leyniþjónustunni, CIA, falið að gera úttekt á því að hvaða marki tilraunir til að grafa undan og fella ríkisstjórnir Bandaríkjunum ekki að skapi, hefðu haft tilætlaðan árangur. Ekki reyndist unnt að finna dæmi um slíkt þrátt fyrir fjölda slíkra afskipta!
Bandaríski þjóðfélagsrýnirinn Noam Chomsky vekur á þessu athygli
og vísar í nýlega grein í New York Times um þetta efni. Segir hann
að fjölmiðlar ættu að horfast í augu við veruleikann og segja sem
er, að Bandaríkin séu mesta hryðjuverkaríki veraldar. Rekur hann
fjölda dæma - nefnir dæmi sem New York Times tiltekur, Kúbu,
Angóla og Nikaragúa og bætir við El Salvador af því tilefni að í
dag, 16. nóvember, eru liðin 25 ár síðan sex jesúíta prestar voru
myrtir þar af hryðjuverkasveit hersins sem Bandaríkjamenn höfðu
þjálfað. Niðurstaðan er sú að oftar en ekki hafi afskipti
Bandaríkjanna orðið til ills og stuðlað að gagnstæðri niðurstöðu
við þá sem lagt var upp með.
Undir lok umfjöllunar sinnar er vikið að hernaðaraðgerðum sem nú
standa yfir: loftárásum á ISIS í Sýrlandi. Vitnað er í nafngreinda
sérfræðinga CIA sem segja að vísbendingar geti verið um að afskipti
Bandaríkjamanna hefðu stuðlað að uppgangi ISIS og að loftárásirnar
nú séu að þjappa saman Jabhat al-Nusra (grein úr Al Queda) og
ISIS, sem að undanförnu hafa deilt. Nú hafa þessi samtök
sameiginlegan óvin - sem eru Bandaríkin og taglhnýtingar þeirra.
Þar erum við Íslendingar því miður hnýttir í tagl!
Slóð á umfjöllun Chomskys er hér: http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/26980-the-long-shameful-history-of-american-terrorism