SAMFYLKINGIN ÞARF AÐ TALA SKÝRAR

Birtist í Morgunblaðinu 31.10.05.
Fyrir rúmri viku birti ég í Morgunblaðinu "Opið bréf til Samfylkingarfólks". Þar er spurt um stefnu Samfylkingarinnar. Við þessu hafa orðið mikil viðbrögð, greinaskrif og yfirlýsingar, aðallega frá Samfylkingarfólki en einnig frá samherjum mínum auk þess sem Staksteinar Morgunblaðsins hafa séð ástæðu til að gleðjast yfir því sem þeir reyna að túlka sem óvinafagnað en er í reynd hugsað af minni hálfu sem málefnalegt innlegg, tilboð um mikilvæga rökræðu á vettvangi stjórnmálanna.

Enginn vænir Garðar Sverrisson, fyrrverandi formann Öryrkjabandalags Íslands, um að hafa ekki sjálfstæða sýn, en í bréfi sem hann skrifar til vefsíðu Össurar Skarphéðinssonar um þessa umræðu segir hann skrif mín hafa verið "kurteisleg og málefnaleg" og bendir réttilega á að ég hafi alltaf verið "mjög eindreginn fylgismaður vinstra samstarfs og horft sérstaklega til Samfylkingar í þeim efnum".

Garðar furðar sig á harkalegum viðbrögðum við skrifum mínum og vísar til afstöðu minnar á eftirfarandi hátt: "Að gefnu tilefni leyfir hann sér hins vegar að spyrja hvort það sé í raun og veru svo að Samfylkingin vilji auka vægi og umfang einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni eða draga línuna við heilbrigðis- og skólamál. Á meðan félagsleg misskipting fer hraðvaxandi á Íslandi eru þetta ekki einhver sérvitringsmál heldur grundvallarspurningar sem brenna á tugþúsundum kjósenda, ekki síst okkur sem teljum tímabært að stofna til öflugrar velferðarstjórnar. Þegar frjálshyggjuöfl í Sjálfstæðisflokki telja sig geta gengið lengra í samstarfi við Samfylkingu en Framsóknarflokk er von að tvær grímur renni á ýmsa. Þess vegna er mikilvægara en ella að opnu bréfi Ögmundar sé svarað af málefnalegri yfirvegun í stað þess að bregða honum um að vera ekki heilsteyptur í afstöðu sinni til samstarfs Samfylkingar og VG."

Einn þeirra sem svara skrifum mínum er Helgi Hjörvar, bæði í Morgunblaðinu og á heimasíðu sinni. Á síðarnefnda staðnum segir Helgi: "Kjarninn í afstöðu minni er sá að myndun stjórnar með VG um velferðarkerfið sé ekki eitt og sér nægilega áhugaverður kostur. Slíkt stjórnarsamstarf yrði líka að snúast um einhver þeirra brýnu úrbótamála sem ráðast þarf í fyrir allan almenning og atvinnulíf í landinu. En það er um að gera að hefja þá umræðu..." Það sem vekur athygli mína er að Helgi Hjörvar horfir ekkert síður til annarra flokka en VG um stjórnarsamstarf, sbr. eftirfarandi í Morgunblaðsgrein hans: "Vafalaust er VG besti samstarfskosturinn við að efla velferðarkerfið en hvort flokkurinn verði fyrsti valkostur Samfylkingar um stjórnarsamstarf mun trúlega ráðast af því hvort að á öðrum sviðum þjóðlífsins breytingar þær sem VG kallar eftir vísa fram eða aftur."

Það er rétt hjá Helga Hjörvar að VG og Samfylkingin hafa ekki verið á einu máli um hvað snýr fram og hvað aftur í átökum undangenginna ára um einkavæðingu, stóriðjustefnu og skattamál. Samfylkingin hefur einfaldlega verið of höll undir, eða of nálægt, stefnu stjórnarmeirihlutans fyrir okkar smekk. Ég hef þó þá trú að þarna séu samkomulagsfletir, enda hafa margir áhrifamiklir málsvarar Samfylkingarinnar iðulega tekið undir okkar sjónarmið varðandi áherslur í efnahags- og atvinnumálum. Hin pólitísku landamæri á milli félagshyggju og peningafrjálshyggju, hin raunverulega víglína stjórnmálanna í dag, tel ég hins vegar liggja um velferðarþjónustuna. Þar er spurt hvort stjórnmálaflokkar séu reiðubúnir að setja grunnþætti hennar, þá ekki síst skólakerfið og heilbrigðisþjónustuna, á markað. Við í VG höfum yfirleitt treyst því að þarna værum við og Samfylkingin á sama róli. Er því nema von að mér og fleirum bregði þegar forystumenn þar á bæ ræða allt í einu opinskátt um einkavæðingu og/eða einkalausnir í heilbrigðisþjónustunni?

Um nákvæmlega þetta geisa nú harðvítug átök um heiminn allan, bæði innan einstakra ríkja og á fjölþjóðlegum vettvangi, í Evrópusambandinu, hjá Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að ógleymdri Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Hér liggja skilin á milli hægri og vinstri. Eða hvað? Varaformanni Samfylkingarinnar finnst svo ekki vera. Eins og Ármann Jakobsson bendir á í skrifum sínum á vefritinu Múrnum sér varaformaður Samfylkingarinnar ekki muninn á heilbrigðisþjónustu og matvörubúð. "Var glæpur Ögmundar sá," segir Ármann í pistli sínum, "að hafa áhyggjur af því að margir Samfylkingarmenn töluðu nú fyrir einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, þ.e. að hið opinbera skattleggi borgarana fyrir rekstri heilbrigðiskerfisins en borgi síðan bisnessmönnum fyrir að reka þjónustuna sem við borgum og rukka okkur fyrir. Í framhaldinu kom Ágúst með þetta gullvæga svar: "Á ríkið þá líka að reka matvörubúðir?" Þannig að það liggur nú fyrir að í huga varaformanns Samfylkingarinnar er enginn munur á heilbrigðiskerfinu og matvörubúð." Sannast sagna komu mér skrif varaformanns Samfylkingarinnar, sem jafnframt er formaður heilbrigðishóps flokksins, undarlega fyrir sjónir, því hann virðist ekki þekkja til þeirrar miklu umræðu sem fer nú fram víða um lönd um einkarekstur og einkaframkvæmd og mismunandi fjármögnun þessara rekstrarforma.

Ýmsir aðrir hafa tjáð sig um þetta efni undanfarna daga á síðum Morgunblaðsins, og nefni ég Björgvin G. Sigurðsson og Birgi Dýrfjörð. Ekki er ég þeim sammála fremur en Stefáni Jóni Hafstein, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hann vill hvorki líta til hægri né vinstri og lýsir yfir: "Því er svarið við spurningu Ögmundar, á hvaða leið er Samfylkingin? hvorki hægri né vinstri, heldur beint áfram. Til framtíðar." Vandinn er sá, Stefán Jón, að varla komast menn langt inn í framtíðina ef framundan væri hengiflug og stefnan tekin beint á það. Að mínu viti er einkavæðing velferðarþjónustunnar nánast ígildi þess að steypa henni fram af hengiflugi.

Og er þá komið að formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem túlkar skrif mín á þá lund í viðtali við DV að ég "sé að búa til möguleika á samstarfi vinstri grænna við Sjálfstæðisflokkinn". Vissulega mætti fá þessa niðurstöðu ef við gæfum okkur að hlutaðeigandi þætti samstarf við hægri sinnaðan stjórnmálaflokk vera fýsilegur kostur, ef gagnrýni mín á Samfylkinguna hefði komið frá hægri en ekki vinstri. Ef menn í ofanálag kæmust að þeirri niðurstöðu að Samfylking væri engu minna hægrisinnuð en Sjálfstæðisflokkur hljómaði rökstuðningur Ingibjargar Sólrúnar trúverðugur. Hvers vegna ætti VG að vilja starfa með einum hægri flokki fremur en öðrum? Þetta er ágæt spurning.

Ég er hins vegar í allt öðrum erindagjörðum á síðum Morgunblaðsins en að leita eftir samstarfi við hægrimenn. Ég næri nefnilega þá von í brjósti að hægt verði að mynda vinstri velferðarstjórn, nokkuð sem ég hef barist fyrir allar götur frá því ég gaf mig í stjórnmálabaráttuna fyrir margt löngu. Innan VG erum við samstiga um að vilja hreinar og skýrar línur fyrir kosningar þannig að jafnt kjósendur sem áhugasamir samstarfsaðilar viti að hverju þeir gangi. Þetta kom skýrt fram í máli formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, á nýafstöðnum landsfundi VG. En það segir sig sjálft að við viljum ekki óútfylltan víxil. Við viljum vita hvað er í pokahorninu hjá hugsanlegum samstarfsaðilum. Og sannast sagna þykja mér svör Samfylkingarinnar æði loðin - enn sem komið er. En orð eru til alls fyrst, vonandi telst það þarfaverk fremur en hitt að efna til þeirrar umræðu sem nú er hafin.

Fréttabréf