ALCAN OG BÖRNIN

Álrisarnir láta ekki að sér hæða. Þeir nota öll tækifæri til þess að smeygja sér inn í þjóðarvitundina með áróður sinn. Látum vera að farið sé um landið með boðskapinn í fylgd iðnaðarráðherrans. Það er fremur við ráðherra og ríkisstjórn að sakast fyrir þjónkun sína en við álrisana sjálfa. Að vísu er það ósvífni í meira lagi þegar Alcoa kallar íslenska sveitarstjórnarmenn til New York til að heyra hvaða sveitarfélag auðhringurinn hafi valið sér á Norðurlandi fyrir næstu álverksmiðju. Þetta er gert eftir mikla áróðursherferð þar sem sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi var att hverjum á móti öðrum í stríð um næsta álver. Hið hlálega í stöðunni er svo hitt að aðeins í einu byggðarlagi af þremur á Norðulrandi er meirihluti fyrir því að fá álver í heimabyggð samkvæmt nýlegri skoðanakönnun sem iðnaðarráðuneytið fjármagnaði fyrir ráðherra Framsóknarflokksins. Alls staðar á Norðurlandi er mjög hörð og að því er virðist harðnandi andstaða gegn álvæðingunni. (sjá nánar HÉR um fyrirhugaða utanstefnu sveitarstjórnarmanna til New York í anda nýlendustefnu auðhringanna).

Tilefni þessa pistils er þó ekki nýjustu afrek Alcoa heldur Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík. Vaxandi andstaða er gegn stækkun þess. Hvað skal þá til bragðs taka? Að sjálfsögðu er hafin áróðursherferð. Við því er lítið að segja nema hvað henni er einkum beint að yngstu kynslóðinni. Nú á að finna stærðfræðisnillinginn í hópi hennar. Þetta er að sjálfsögðu kynnt sem græskulaust gaman með teiknimyndum og öllu tilheyrandi. En er þetta bara græskulaust gaman? Er til of mikils mælst að börnunum verði hlíft? En umfram allt, hér geta lesendur kynnt sér það nýjasta nýtt frá Alcan, auðhringnum mannvæna og barnvæna.    

Fréttabréf