KRISTJÁN HREINSSON, NÁTTÚRUVAKTIN OG GRASAGUDDA.IS

Óhætt er að segja að umræðan um umhverfismál verður nú kraftmeiri með hverjum mánuðinum sem líður. Líklegt má heita að ef vitund fólks um mikilvægi umhverfisverndar hefði verið komin á það stig sem hún er nú, hefði Kárahnjúkavirkjun aldrei orðið að veruleika.
Eða hvað? Á þeim tíma sem þessi örlagaríka ákvörðun var tekin var barist harðar á þingi um hana en um flest önnur mál; í fjölmiðlum, á baráttufundum stórum og smáum, sumum agnarsmáum, sbr. varðstöðu listamanna við Alþingishúsið í öllum veðrum! - alls staðar var barist en engu að síður var verkefnið keyrt í gegn.
Alþingismenn sem börðust gegn þessum virkjunaráformum voru orðnir nokkuð móðir eftir slaginn og fannst í flest skjól fokið eftir maraþon-umræður og fjölda atkvæðagreiðslna þar sem meðal annars var felld tillaga frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkaframkvæmdina. Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar eða Frjálslynda flokksins studdi þessa tillögu. Enginn.
Á flokksþingi VG skömmu síðar - eftir að framkvæmdirnar voru hafnar - var ráðið frá því að samþykkja tillögu sem Kristján Hreinsson, skáld, var helstur talsmaður fyrir þess efnis að ekki væri of seint að hætta við. Þótti mörgum sem þetta væri sem að berja höfðinu við steininn.
Þegar rifjuð er upp andstaðan gegn stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi  - eða væri nær að segja baráttan fyrir náttúrvernd - vilja stundum gleymast þeir sem voru í mestri eldlínu. Mögnuð var frásögn þriggja einstaklinga í Morgunblaðinu 3. nóv. sl. í prýðilegri umfjöllun blaðsins, undir fyrirsögninni, Illt að vera á annarri skoðun. Þetta eru Karen Erla Erlingsdóttir, Þórhallur Þorsteinsson og Skarphéðinn G. Þórisson, allt kunnir náttúruverndarsinnar. Í viðtölum við þau kemur fram hvílikri framkomu og viðmóti þau þurftu að sæta - nokkuð sem vart getur flokkast undir annað en ofsóknir. Þessir einstaklingar og ýmsir fleiri hafa sýnt lofsverðan kjark og úthald.
Síðan líður tíminn. Framkvæmdum er fram haldið og það rennur upp fyrir sífellt fleirum hvílíkt óráð stefndi í og hvílík verðmæti væru í húfi. Þótti mörgum þá sem þeir gjarnan hefðu viljað "Lilju" Kristjáns Hreinssonar, skálds, kveðið hafa!
En stenst það að ekki hefði orðið af Kárahnjúkavirkjun miðað við þá afstöðu sem nú er uppi með þjóðinni. Á það er til einn mælikvarði og hann er hvort stjórnvöld muni komast upp með að eyðileggja Jökulsárnar í Skagafirði. Það er mælikvarðinn.
Nú þarf að blása til sóknarbaráttu gegn stóriðjusinnum sem sýnt hafa með verkum sínum að þeir eira engu þegar stórðiðjan er annars vegar. Það er gott til þess að vita að til er fjöldinn allur af skeleggu baráttufólki sem unnir sér engrar hvíldar í þessum slag. Eitt aðdáunarvert dæmi þar um er vefsíðan grasagudda http://www.grasagudda.is . Þetta er tiltölulega ný vefsíða. Þar er hvergi gefið eftir. Ég óska Jökulsánum í Skagafirði til hamingju með Náttúruverndarsamtök Íslands, grasaguddu.is, Náttúruvaktina, http://www.natturuvaktin.com/ , Ómar,  Andra Snæ og alla hina ... sem standa vörð um íslenska náttúru.      

Fréttabréf