ÓLÖGMÆT RUKKUN VIÐ KERIÐ?

Borgað fyrir Kerið

Fyrir fáeinum dögum skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem ég sagði að nokkuð væri um liðið frá því ég skoðaði Kerið í Grímsnesi, tími væri kominn til að líta þar við. Ég myndi hins vegar ekki borga krónu þótt "eigendur" hefðu - aðspurðir í DV nú um helgina - lýst því yfir að ég yrði að borga eins og aðrir.
Það er nú það. Hvar skyldi standa í lögum að þeir hafi heimild til að krefja mig um aðgangseyri fyrir leyfi til að horfa á náttúru-undur Íslands? Við erum ekki að tala um þjónustugjald fyrir að fá að nýta tjaldbúðarsvæði með salernum og hreinlætisaðstöðu. Nei, við erum að tala um gjald fyrir að horfa á landið og ganga um það!

Ég fæ ekki betur séð en að í íslenskum lögum sé almannaréttur nokkuð vel tryggður þótt enn megi bæta lögin hvað þetta varðar. Reyndar er augljóst að það verður að gera í ljósi vaxandi ágirndar ýmissa landeigenda.

Við erum nú á tímamótum því margir landeigendur virðast ætla að láta sverfa til stáls. "Eigendur" Kersins riðu á vaðið með rukkunar-tollstöð þar sem fólk er krafið um peninga fyrir að horfa og "eigendur" að hluta Geysissvæðisins hafa nú í hótunum við ferðamenn um að byrja fárheimtur með næsta vori.

Það er fallegur dagur. Best að drífa sig í Kerið.

Fréttabréf