Fara í efni

MYND MÁNAÐARINS

Að undanförnu hafa birst nokkur lesendabréf hér síðunni þar sem vikið hefur verið að misskiptingunni í landinu. Skjólstæðingar stjórnarflokkanna hafa hagnast um milljarða, jafnvel milljarðatugi í kjölfar einkavæðingar á vegum ríkisstjórnarinnar.

Einn lesandi vísar í ársskýrslu Landsbankans þar sem fram kemur "að launagreiðslur til Halldórs J. Kristjánssonar bankastjóra námu 149 milljónum króna á síðasta ári, en hluti þeirrar upphæðar tengdist að vísu uppgjöri á kaupréttarsamningum. Greiðslur til Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra námu 83 milljónum króna samkvæmt ársskýrslunni og alls fengu 16 framkvæmdastjórar sviða og dótturfélaga greiddar samtals 598 milljónir í laun og hlunnindi eða hver um sig að meðaltali 37,4 milljónir. Halldór var sem sagt með 12,4 milljónir á mánuði, Sigurjón með litlar 6,9 milljónir og 16 framkvæmdastjórar fengu að jafnaði 3,1 milljón á mánuði í sinn hlut". (sjá nánar HÉR)

Annar lesandi vísar í Morgunblaðsfrétt þar sem fjallað er um fjármálabrask Finns Ingólfssonar, viðskiptafélaga Ólafs Ólafssonar, framsóknarmannanna, sem nú velta milljörðum á eigin reikningum.Um nýjustu tilfæringar hjá Finni kemur eftirfarandi fram í fyrrnefndu lesendabréfi: "Fikt, einkahlutafélag sem er fjárhagslega tengt Finni Ingólfssyni, stjórnarmanni í bankanum og forstjóra VÍS, keypti í gær 76 þúsund hluti í KB banka á genginu 928. Verðmæti bréfanna var því um 70 milljónir króna. Í tilkynningu til Kauphallar segir að Finnur eigi enga hluti í bankanum en fjárhagslega tengdir aðilar eigi 28,4 milljónir hluta eftir þessi viðskipti. Að framvirkum samningum meðtöldum eru hlutirnir um 30 milljónir talsins sem félög tengd Finni eiga í KB banka. Markaðsvirði þeirra hluta er um 28 milljarðar króna. " (sjá nánar HÉR)

Þriðji lesandinn, kórónar síðan þessa síðustu syrpu lesendabréfa um þetta efni hér á síðunni. Ólína minnir á að á sínum tíma hafi ljósmyndari Morgunblaðsins náð ógleymanalegri fréttamynd, þegar þeir félagar, Finnur Ingólfsson og Ólafur Ólafsson, fengu Búnaðarbankann gefins árið 2002. Á myndinni hafi sést þegar  "áhrifamenn í viðskiptalífi og stjórnmálum sem keyptu banka af flokksfélögum sínum… héldu hróðugir á brott frá því að undirrita samninga þar um. Í myndinni var fólginn veruleiki sem sagði meira en langar úttektir um íslensk viðskipti og viðskiptasiðferði." Ólína segir að á sínum tíma hefði myndin af þeim framsóknarfélögum verðskuldað útnefningu, sem mynd ársins. Ólínu get ég glatt með því að sú mynd var einmitt útnefnd hér á síðunni sem mynd ársins 2002 eins og sjá má HÉR.

Ólína gerir það að tillögu sinni að ljósmynd sem í gærmorgun birtist í Morgunblaðinu af bankastjórum Landsbankans verði útnefnd mynd þessa árs. Hún minni um margt á myndina af þeim félögum Finni og Ólafi þegar þeir fengu Búnaðarbankann að gjöf árið 2002. Á Morgunblaðsmyndinni í gær, segir Ólína, "sátu fyrir búralegir bankastjórar glaðbeittir og ánægðir með mikinn hagnað bankans sem líka var seldur fyrir slikk ekki alls fyrir löngu. Í forgrunni var skilti sem á stóð: Fáðu meira fyrir launin þín. Afhjúpandi mynd og afstrakt sem sjálfsagt hefur vakið fleiri menn til umhugsunar um launatekjur, hagnað og sölu ríkiseigna en tveir eða þrír leiðarar á miðopnu Morgunblaðsins. Myndirnar tvær sýna að morgunblaðsmenn eru vakandi í vinnunni......"

Allt kann þetta að vera satt og rétt hjá Ólínu en ég minni á að árið er rétt að hefja göngu sína. Að svo stöddu skulum við láta nægja að útnefna þá félaga Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason sem fyrirsætur mánaðarins.  Vel má vera að myndin endi sem verðlaunamynd ársins. Hver veit nema svo verði?

Bréf Ólínu er HÉR