Fara í efni

FÁBJÁNI KVEÐUR SÉR HLJÓÐS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.05.24.
Já, ég er að tala um sjálfan mig. Og ekki bara sjálfan mig heldur öll þau sem kvöddu sér hljóðs þegar ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn nær óskiptur, fjölmiðlamenn og þorri stjórnarandstöðuþingmanna, með mikilvægum undantekningum þó, og svo launaðir lögspekingar stjórnvalda, knúðu á um lögfestingu á uppfærslu á stefnu Evrópusambandsins um markaðsvæðingu orkunnar. Orkupakki 3 hét þetta skref og gekk út á að yfirvald yfir markaðsvæddu raforkukerfi horfði til Brussel en ekki Reykjavíkur. Við sem andæfðum þessu vorum afgreidd sem fábjánar.


Og nú kemur senn orkupakki 4 sem geirneglir enn betur markaðsvæðingu raforkunnar. Þessi stefna var mörkuð um síðustu aldamót en áhrifin koma hægt en markvisst, með hverjum pakkanum á fætur öðrum, þar til verkið er fullkomnað. Þegar raforkukauphöll var opnuð á dögunum, eflaust við bjölluhljóm eins og tíðkast í slíkum höllum, mátti vita hverjum bjallan glymdi. Að sjálfsögðu okkur, hinum almenna manni, sem nú þegar er með á sínu framfæri fjölda milliliða sem sagðir eru eiga að tryggja hag neytenda með samkeppni sín á milli.

Fram til þessa hefur lítið sem ekkert gengið að venja evrópska neytendur á að rýna í verðskrár sem styðjast megi við þegar hlaupið er á milli milliliðanna. Skýringin er hygg ég tvíþætt, fólk hafi talið sig hafa annað að gera en að ákveða hvar eigi að kaupa rafmagn þann daginn, hjá þessum millilið eða hinum. Hin skýringin sé sú að munur á verðlagi “vörunnar” hefur ekki verið nægilega mikill til að freista raforkukaupenda.

Með hækkandi raforkuverði á meginlandi Evrópu, eftir að kaup á rússneskri orku voru stöðvuð og síðan með tilkomu snjallmæla í hvert hús, þar sem rokka má með raforkuverðið eftir álagstímum dag og nótt, eru að opnast nýir möguleikar til að bjóða hinum fátæku að steikja jólalærið á afsláttarprís eftir miðnætti á jólanótt á meðan hinir efnuðu setjast til borðs venju samkvæmt klukkan sex.

Og frændur vorir Norðmenn, sem opnuðu fyrir nýjar gas- og olíuleiðslur til meginlands Evrópu daginn eftir að Nordstreamleiðsla Rússa var eyðilögð með sprengingu, þurfa nú að súpa seyðið af margföldun orkuverðs. Sömu sögu er að segja frá Svíþjóð. En spyrja má hvort það sé ekki í þjóðarhag að selja orkuna dýrum dómum úr landi? Varla, ef það kemur niður á innlendum neytendum í stórhækkuðu verði, og svo má ekki gleyma því að alþjóðlegir fjárfestar voma yfir þessum markaði og hefur þeim þegar tekist að ná undirtökum í vindorku, sem við þegar sjáum merki um á Íslandi. Og gleymum því ekki heldur að einkavæðing HS orku var hugsuð sem byrjun á ferli. Sú hugsun er ekki horfin.

Út á þetta gengur markaðsvæðingin, að opna fyrir gróðaöflunum. Og þegar hlýnun jarðar, sá happafengur þessara afla, kemur í ofanálag til sögunnar, þá hlaupa allir til með dollaramerki í augum og vilja virkja meira og aftur meira, búa til græna orku til að bjarga móður jörð – eða svo er sagt. Þetta þekkja Íslendingar vel. Ekki satt Guðlaugur Þór?

Svo koma vindmyllurnar, líka til að bjarga mannkyninu og kannski lappa upp á einhverja prívat bankareikninga í raforkukauphöllum heimsins.

Alls staðar er allt á fullu en alltaf á þessum nótum – gróðaöflum í hag.

Þjóðin sá þetta allt fyrir. Allar skoðanakannanir sýndu fram á andstöðu við markaðsvæðinguna, færustu óháðu vísindamenn þjóðarinnar vissu hvað klukkan sló, hagfræðingar, umhverfissinnar og kunnáttumenn úr raforkugeiranum að sama skapi. Þeir stigu fram undir merkjum Orkunnar okkar þegar orkupakki 3 var til umfjöllunar í ríkisstjórn og á Alþingi, og hvöttu til þess að Íslendingar segðu sig frá markaðsstefnu Evrópusambandsins áður en þeir glötuðu forræði yfir orkuauðlindinni.

Allt þetta fólk vildi orkufyrirtækin í almannaeign, vildi afþakka milliliði og að orkuöryggi almennings yrði tryggt. Fyrirsjáanlegt væri að markaðurinn myndi aldrei tryggja það. Þau sem fóru með völdin létu þessar raddir sem vind um eyru þjóta enda væru þetta allt fábjánar sem fráleitt væri að hlusta á. Nákvæmlega það mátti lesa í leiðurum fréttablaða og þannig var talað á Alþingi um andmælendur markaðsstefnu Evrópusambandsins.

Svo kemur í ljós að meintir fábjánar höfðu fullkomlega rétt fyrir sér.

Vonandi kveður við annan tón þegar Orkupakki 4 kemur á borð ríkisstjórnar og Alþingis. Í öllu falli er það nú breytt að gagnrýnendur verði afgreiddir sem fábjánar. Nú vita nefnilega allir að ef fábjána er einhvers staðar að finna þá er það annars staðar en í félagsskap þeirra sem tala máli Orkunnar okkar.
------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.