Fara í efni

HVER TÖLUÐU MÁLI ÍSLANDS Í ICESAVE DEILUNNI?

Að undanförnu hefur Icesave deilan frá hrunárunum komið til umræðu í fjölmiðlum og þá hver hafi gert hvað hvað og sagt hvað.
Allir sem tjáðu sig telja sig væntanlega hafa talað máli Íslands. Það efast ég ekki um að sé líka rétt.
En það breytir því ekki að málstað Íslands skilgreindu menn með mismunandi hætti.

Þáverandi ríkisstjórn, Samfylkingar og VG og reyndar einnig sú sem áður sat, það er stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, taldi að okkur bæri að ganga að kröfum Breta og Hollendinga og semja um greiðslur úr ríkissjóði Íslands og auk þess greiða vexti og málskostnað. Þau sem vildu fallast á eftirgjöf við kröfuhafaríkin segja nú sum hver að deilt hafi verið um keisarans skegg því þegar allt hafi komið til alls hefðu eignir þrotabúanna dugað upp í greiðslu til innistæðueigenda. Þá er horft framhjá himinháum vaxta- og málskostnaði sem nam 5,8 % af vergri landsframleiðslu í fyrsta Icesave samningnum að ógleymdri óvissunni því enginn vissi fyrir víst hvað þrotabúin höfðu að geyma. Deilt var meðal annars um það hvort láta ætti íslenska skattgreiðendur axla þá óvissu. 

Þetta er því að sjálfsögðu fráleit fölsun eins og ég bendi á í úttekt sem ég gerði á Icesave deilunni í bók minni Rauða þræðinum.

Þar fjalla ég einnig um málflutning af hálfu Íslands utan landsteinanna. Ef horft er til þeirra sem gagnrýndu samningana þá höfðu margir sig í frammi og fer því fajrri að þar hafi Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti, verið einn um að halda uppi andófinu gegn Icesave. Þar nefni ég náttúrlega fyrst InDefence hópinn sem að því er virðist er skipulega þagaður í hel en hann var beinlínis stofnaður til að tala máli Íslands í Bretlandi og tókst hópnum að safna tugþúsundum undirskrifta gegn yfirgangi Breta. Fjölmargir aðrir komu að hinu alþjóðlega umræðuborði og getum við mörg talað þar af eigin reysnlu af ótal viðtölum sem við áttum við erlendar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, svo og helstu dagblöð í Bretlandi og Holland og annars staðar á meginlandi Evrópu. Það breytir því ekki að öflugasti einstaki talsmaður Íslands í þessu örlagamáli í erlendum fjölmiðlum var án efa Ólafur Ragnar Grímsson. Framlag hans reyndist Íslendingum afar mikilvægt.

En í mínum huga snerist Icesave deilan um annað og meira en peninga, hún snerist um sjálfan grundvöll stjórnmálanna. Þetta mál snerti mig sjálfan með mjög beinum hætti því það varð til þess að ég sá mig tilknúinn að segja af mér sem ráðherra og átti málið eftir að vinda upp á sig í langvinnum deilum um það sem ég vil kalla prinsipmál í stjórnmálum.

Hér að neðan fara niðurlagsorð umfjöllunar minnar um Icesave í bók minni Rauða þræðinum sem út kom í árasbyrjun 2022, endurprentuð með viðbót í árslok 2022 (bls. 354-358):




Lokakafli

Síðasti þátturinn í þessu mikla leikverki fór svo fram fyrir EFTA-dómstólnum. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hafði kært Ísland í desember 2011 fyrir að hafa ekki tryggt eigendum innstæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi lágmarkstryggingu við fall bankans. Í mars 2012 óskaði framkvæmdastjórn ESB eftir því að gerast aðili að dómsmálinu og tók undir rök Bretlands og Hollands gegn Íslandi. Málarekstrinum var stýrt í utanríkisráðuneytinu af ráðherranum sem þar sat, Össuri Skarphéðinssyni. Fórst honum það vel úr hendi að því marki sem hann kom að því beint.

Dómsúrskurðurinn var kveðinn upp 28. janúar 2013. Niðurstaðan var sú að Ísland var sýknað af kröfum Breta og Hollendinga. Í dómnum var öllum kröfum á hendur Íslandi hafnað. ESA og Evrópusambandinu var gert að greiða allan málskostnað.

Nú vildu allir gjarnan vera í sigurliðinu eins og fram kom í umræðu á Alþingi daginn eftir.

Dagbókarfærsla 29.01.13 að fenginni dómsniðurstöðu í Icesave

Er að hlusta á umræður um Icesave. Var í magaspeglun og er heima til að láta deyfinguna renna úr mér. Allir sigruðu í Icesave! Svo er að skilja á umræðunum á Alþingi sem ég fylgist með í beinni útsendingu. Úrskurður EFTA dómstólsins var birtur í morgun – Íslandi í hag. Lilja Mósesdóttir vék að afsögn minni, ein um það. Guðmundur Steingrímsson sagði að allir þingmenn hefðu í öllu þessu ferli látið stjórnast af því sem þeir hefðu talið best fyrir land og þjóð. Þetta er rangt. Hrópleg ósannindi. Þau létu alltof mörg stjórnast af valdboði. Um þetta snerust hinar hatrömmu deilur innan Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs: Sjálfstæða dómgreind annars vegar, hjarðmennsku hins vegar. Ríkisstjórnin samþykkti Icesave samninginn óséðan í júní 2009 gegn mótmælum mínum og þingflokkar stjórnarmeirihlutans veittu í kjölfarið samþykki sitt með undantekningum í þingflokki VG, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni auk mín. Höskuldur Þórhallsson talaði um flokksræði í sinni ræðu. Gerði það vel. Auðvitað kann það að hljóma ósanngjarnt að ætla fólki að gera annað en það sem það telur vera fyrir bestu. Vandinn er sá að forystusauðirnir settu línurnar og hin fylgdu gagnrýnislaust á eftir. Fannst það hljóta að vera best fyrir Ísland. Gott og vel, það er sjónarmið. Setjum svo. En þess vegna hugtakið hjarðmennska. Hún skrifast ekki aðeins á forystusauði. Hún skrifast á sauðina alla. Þegar allt kemur til alls eru það hinir leiðitömu sem bera sína ábyrgð! Ef til vill er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra. Hjarðmennsku í stjórnmálum og í samfélaginu almennt. Hana verður að ræða opinskátt. Hún er meinsemd okkar tíðar. Hún er meinsemd allra tíma.

Aðkoma þjóðarinnar var AGS, ESB og fleirum eitur í beinum

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave var hið sögulega í þessu máli. Það vissi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið líka og lögðust heiftarlega gegn því að svona færi. Þetta gæti orðið hættuleg fyrirmynd öðrum þjóðum. Þessum stofnunum peninga og valds hraus hugur við því að almenningur ætti að fá að skipta sér af milliríkjasamningum og fjárhagsmálum af þessari stærðargráðu.

Þessi andlýðræðislega hugsun átti eftir að ná inn í vinnu Stjórnlagaráðsins sem skóp drög að nýrri stjórnarskrá, því í tillögum ráðsins um rétt þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki gert ráð fyrir að sú krafa gæti náð yfir milliríkjasamninga eða samninga af þeim fjárhagslega toga sem Icesave var. Þetta er hið kostulegasta mál og minnir á að þræðir heimslögreglu kapítalismans liggja víða. Í öllu falli var þetta mjög á skjön við þau skilaboð sem logandi Austurvöllur haustið 2008 hafði sent frá sér með taktföstum áslætti búsáhaldanna.

Þegar Icesave hefur komið til umfjöllunar á fundum og ráðstefnum verkalýðssamtaka og annarra almannasamtaka sem ég hef sótt, þá er það hin lýðræðislega aðkoma þjóðarinnar að Icesave í ítrekaðri þjóðaratkvæðagreiðslu sem flestum finnst skipta höfuðmáli. Því er ég hjartanlega sammála og um það vorum við andstæðingar Icesave í þingflokki VG öll sammála: Þjóðin ætti að leiða Icesave til lykta.

Eftirmáli

Á endanum reyndust eignir Landsbankans nægja fyrir innstæðukröfum í Icesave, sem eigendur bankans höfðu reyndar fullyrt að yrði raunin. Hvorki þeir né aðrir gátu þó vitað þetta á sínum tíma því það gat enginn vitað með vissu. Eignir gengu kaupum og sölum á þessum tíma á brotabroti af virði þeirra og hefði getað farið mun verr.

Ef Icesave-samningarnir hefðu verið samþykktir, hefðu íslenskir skattborgarar eftir sem áður setið uppi með gríðarháar vaxtagreiðslur, 140 milljarða, 5,87% af vergri landsframleiðslu, sem Icesave I og Icesave II samningarnir hefðu lagt þeim á herðar. Icesave I og Icesave II báru 5,5% vexti en Icesave III 3,3% vexti til Bretlands og 3,0% til Hollands. Voru vaxtagreiðslur þá komnar niður í 46 milljarða. Margir kjósa að horfa framhjá þessu.

Veigamesta spurningin var hins vegar hvort láta ætti undan ofbeldi Breta og Hollendinga sem beittu Evrópusambandinu, þar á meðal Norðurlöndunum, svo og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gegn Íslandi. Ætlunin var að þvinga Íslendinga til að lögbinda samningana sem síðar kom á daginn að þeir voru ekki skuldbundnir að takast á herðar. Þess vegna þurfti lög. Og þess vegna þótti sumum réttmætt að kalla Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heimslögreglu kapítalismans.

Andstaðan við Icesave-samningana sparaði íslenskum skattgreiðendum himinháar upphæðir í vaxtagreiðslur, vék þjóðinni undan alvarlegri áhættu sem enginn vissi hve umfangsmikil væri og gerði Íslendingum kleift að halda sjálfsvirðingu sinni, ganga beinir í baki en ekki bognir.

Framvinduna í átökunum um Icesave verður að skoða með hliðsjón af pólitískum aðstæðum, nefnilega þeim að formenn stjórnarflokkanna lögðu allan tímann líf ríkisstjórnarinnar undir. Þjóðaratkvæðagreiðsla varð á endanum sá bjarghringur sem dugði.

Fullyrðingar um að allt myndi fara að „ganga betur“ um leið og hengingarólin hefði verið reyrð um háls þjóðarinnar er þvílíkt fásinnutal að undrum sætir, enda aldrei færð fram haldbær rök fyrir þeim.

Vandi okkar sem höfðum samfylgd í þessu máli innan þingflokks VG var sá að ekki vildum við láta málið verða til að fella stjórnina. Á sama tíma vildum við forða þjóðinni frá illum afleiðingum Icesave-samnings og vorum reiðubúin að gera allt sem í okkar valdi stóð til þess. Þetta litaði málið allan tímann og verður afstaða okkar ekki skilin – stig af stigi – nema að þetta sé haft í huga.

Hárrétt að leita til þjóðarinnar

Stjórnarandstaðan hóf ekki upp sína raust strax vorið 2009. Það gerði hún ekki fyrr en hún var komin á blóðbragðið. Stjórnarandstaðan var þó síður en svo sameinuð í þessu máli allan tímann þótt eflaust vildi hún öll gjarnan nota Icesave til að fella ríkisstjórnina. Það verður þó að segjast að framsóknarmenn, með Sigmund Davíð í fararbroddi, voru alltaf einarðir í andstöðu við Icesave en Sjálfstæðisflokkurinn hafði – með undantekningum – lengi vel sýnt andvaraleysi gagnvart málinu þótt það hafi runnið upp fyrir flestum í hans röðum, hygg ég, þegar á leið hve varasamur samningurinn væri; málið varðaði sjálfstæði þjóðarinnar og hjá henni ætti það heima.

Þó var það svo að eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands vísaði Icesave samningnum í fyrra skiptið til þjóðarinnar, að fram kom í fjölmiðlum að sjálfstæðismönnum þætti þetta sumum hverjum illa ráðið af hálfu forsetans og lýstu opinberlega áhyggjum af þeirri óvild sem þetta kynni að skapa Íslendingum erlendis. Opinberlega var haft eftir Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, sem greiddi atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæði í þinginu, að í reynd teldi hann ekki rétt að forseti Íslands vísaði Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta sannfærði okkur andstæðinga Icesave í VG enn betur um að það var hárrétt mat að vænlegra væri að reiða sig á þjóðina en þennan hluta stjórnarandstöðunnar í Icesave-deilunni!

Sýndi fram á veikleika stjórnmálanna

Icesave er dæmi um veikleikana í þingræðisfyrirkomulaginu, þar tókust á foringjaræði og flokkshollusta annars vegar og réttur þingmanna til að komast að niðurstöðu á eigin forsendum hins vegar. Vandi okkar sem börðumst gegn gáleysislegri meðferð Icesave-málsins, var hins vegar sá að við vildum ekki láta andstöðu við Icesave kalla yfir okkur stjórnarskipti þannig að við fengjum yfir okkur þá sem reynst höfðu alltof auðsveipir málaliðar auðstéttarinnar, nánast volgir úr valdastólum í aðdraganda hrunins. Var okkur í fersku minni þjófræðið sem þrifist hafði í skjóli þeirra, um síðir svo yfirgengilegt að þeim sjálfum blöskraði.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar sameinuðust um að gera sem allra minnst úr afsögn minni. Það skyldi þó aldrei hafa verið vegna þess að andstaða mín í ríkisstjórn vorið 2009 og síðar afsögn sem heilbrigðisráðherra um haustið, hafi skipt meira máli en þau gátu viðurkennt? Og það sem meira er, hún hafi stuðlað að farsælli niðurstöðu.

Stærsta mál síðari tíma

Icesave er eitt stærsta mál íslenskrar stjórnmálasögu síðari tíma. Ekki aðeins vegna þess að það hafi snúist um háar peningaupphæðir. Það er fyrst og fremst stórt vegna þess að það snerist um allt það sem stjórnmál framtíðarinnar munu snúast um, lýðræði gegn auðvaldi, sjálfstæða dómgreind gegn hóphyggju, rétt hvers og eins gegn foringjaræði og ábyrgð sérhvers manns að bregðast við yfirgangi. Það snýst um gagnsæi gegn leyndarhyggju og síðast en ekki síst snýst það um mannréttindi gegn auðhyggju.”

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.