Fara í efni

Mótun „vinsælda“ með ríkisfjölmiðli

 

- Látum ekki brosið blekkja okkur -

[Hin hliðin]

Heillyndi vantar á hærra stig,

heiðarleikann styð.

Láttu ekki brosið blekkja þig,

blaðinu snúðu við.

Íslendingar munu ganga að kjörborði þann 1. júní næstkomandi. Ætlunin er að velja nýjan forseta lýðveldisins. Það vekur athygli í aðdraganda kosninganna hvernig íslenska valdaklíkan misbeitir valdi sínu. Fengnir eru þekktir „pópúlistaprófessorar“ til þess að gefa álit sitt á RUV, áróðursveitu allra landsmanna. Þar má glöggt greina hvernig „góða fólkið“ starfar í raun og veru. Það beitir stórfelldum og nauða ómerkilegum áróðri sem ætlað er að hafa áhrif á íslenska kjósendur.

Opinbera áróðursveitan stendur þessu fólki ævinlega opin og er þess vandlega gætt að aðrir fá ekki að tjá skoðanir sínar, enda hafi þeir ekki „réttar skoðanir“ og tilheyri ekki mengi „góða fólksins“. Valdaklíkan, fólkið með „réttu“ skoðanirnar og viðhorfin skilgreinir hvað er rétt og rangt í þjóðfélaginu hamrar síðan á því eins lengi og þurfa þykir. Það var fyrirsjáanlegt að „þríeykið“, þ.e. opinbera áróðursveitan (RUV), nefndir prófessorar og síðan skoðanakannanafyrirtækin tækju höndum saman og ræstu heilaþvottavélina á kosningaári. Þetta lélega leikrit, sem nú er endurflutt, lítið breytt, gengur í stuttu máli út á eftirfarandi:

  1. opinbera áróðursveitan er ræst;
  2. hóað er í skoðanakannanafyrirtækin;
  3. hóað er í „pópúlistaprófessorana“.

Þegar þessir þrír hópar hafa verið kallaðir til má segja að stóra áróðursvélin sé komin í gang. Hún gengur síðan daga og nætur þar til kjörstöðum hefur verið lokað. Þetta virkar þannig að áróðursvélin velur kandidat sem sagður er njóta „afburða vinsælda“. Sá hinn sami, eða sú hin sama, mætir skælbrosandi í hvert viðtalið af öðru og lætur eins og fortíðin sé gleymd. Allskonar hjálparkokkar, sem vilja koma sér í mjúkinn hjá valdaklíkunni, taka þátt í þessu, stinga niður penna við og við, og smyrja þannig áróðursvélina.

Frambjóðandi valdaklíkunnar

Margir biðu þess að sjá hver yrði frambjóðandi valdaklíkunnar. Mánuðum saman hefur sá orðrómur legið í loftinu að fyrrum forsætisráðherra myndi bjóða sig fram til forseta. Þeir sem þekkja hvernig áróðursvélin virkar höfðu illan grun um að þessi yrði raunin. Nú hefur grunur breyst í veruleika.

Þessu fylgir að næstu vikurnar, fram að kosningum, mun birtast hver skoðanakönnunin af annari sem verður látin sýna „rétta útkomu“ en að sama skapi verður þagað vandlega um svarhlutfall, skekkjumörk, og það hvernig úrtak var valið [hvaða hópar voru spurðir]. Það hentar ekki í áróðursherferðinni að ræða slíkt. Réttast væri að skylda skoðanakannanafyrirtækin til þess að leggja öll hrágögn á borðið, þannig að hver og einn geti endurtekið útreikninga í eigin tölfræðiforriti.[i] Engu er treystandi í mafíuþjóðfélagi og þar eru skoðanakannanir engin undantekning. Tölfræði hefur löngum verið beitt til þess að ljúga og blekkja. Það er ekki nóg að brosa í myndavélar og reyna þannig að fá útnefningu sem „vinsælasta stúlkan“.

Þekktur tónlistarmaður lét nýlega svo um mælt að fyrrum forsætisráðherra væri „lang hæfust“ í embætti forseta. Enginn rökstuðningur fylgdi þessari ályktun tónlistarmannsins. Eðlilegt er að spurt sé: hvað er það nákvæmlega sem gerir viðkomandi svona hæfa að mati stuðningsmanna?

Er það pólitísk fortíð? Er það sá eiginleiki að benda fingri í átt að aðalritara Sameinuðu þjóðanna á opinberum vettvangi? Er það sá eiginleiki að brosa í myndavélar? Er það afstaðan til lífsréttarins,[iii] til fóstureyðinga (að vilja helst leyfa þær fram að fæðingu[iv])? Er það afstaðan til hugsana- og tjáningarfrelsisins,[v] sbr. tillögur um „hatursorðræðu“? Er það daður frambjóðandans við efnahagsráðstefnuna í Davos [WEF]? Er það undirgefnin við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina [afsal fullveldis til WHO]? Er það stuðningur frambjóðandans við orkupakka þrjú og afsal íslensks fullveldis til stofnana ESB? Er það afstaðan til Icesave? Öll þessi atriði þarf að skýra mjög vel með verulega ágengum spurningum til frambjóðandans. Hann er ekki laus frá þessum atriðum þótt svo illa færi að hann hlyti kosningu. Mörg þessi afstaða mun verða frambjóðandanum til ævarandi skammar. Að hljóta kjör, til hvaða starfs sem er, leysir menn ekki undan fortíð sinni. Það skyldu þeir gera sér ljóst.

Kannanir knýja áróðursvélina

Á heimasíðu Pew Research Center er afar athyglisverð grein sem birtist þann 14. október 2009. Þar er rakið hvernig skoðanakönnunum er beitt við stefnumótun og í stjórnmálum. Rakin er þróun kannana frá tíunda áratug síðustu aldar. Í greininni kemur fram hvernig kannanir veita leiðtogum ýmist fjármagn eða beina frá þeim fjármagni við stefnumótun leiðtoganna.

Þetta merkir á mannamáli að skoðanakönnunum er beitt sem virku stjórntæki til þess að hafa áhrif á stefnu og stjórnmál. Tölvutæknin og greiðari fjarskipti eru langstærstu áhrifaþættirnir í þessari þróun og því að auka áhrifamátt skoðanakannana.[vi] Tekin eru nokkur dæmi um það hvernig skoðanakannanir hafa leikið stórt hlutverk í mikilvægum málum í Bandaríkjunum. Má þar m.a. nefna kosningabaráttu vegna forsetakosninga.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þó að hægt sé að nota skoðanakannanir til að upplýsa og sýna „almenningsálit“, þá er einnig hægt að misnota þær eða rangfæra til að hagræða viðhorfum almennings. Þannig hafa skoðanakannanir í auknum mæli orðið að tæki fyrir valdaklíkur.

Það getur gerst þegar aðferðafræði kannana er gölluð, úrtaksstærðin er ekki dæmigerð eða spurningarnar eru leiðandi eða hlutdrægar. Það er alltaf mikilvægt að huga að uppruna, aðferðafræði og samhengi hvaða skoðanakönnunar sem er, til þess að tryggja áreiðanleika hennar og réttmæti. Það verður að setja alvarlega fyrirvara við útkomu skoðanakannana þeirra fyrirtækja sem mest er nú vitnað til í fjölmiðlum. Þar skortir mjög á allt gagnsæi. Þessar kannanir hafa sterk einkenni áróðurs og virðast oft endurspegla skoðanir þeirra sem eiga fyrirtækin sem rannsóknirnar gera og þeirra sem óska eftir könnunum.

Meginatriðið er það hvort úrtak er dæmigert fyrir þýðið sem um ræðir. Með úrtakskönnunum er þannig reynt að varpa ljósi á skoðanir fjöldans út frá tiltölulega litlu úrtaki (t.d. 1000-1500 manns). Oft eru niðurstöður fengnar með því að spyrja einungis „góða fólkið“ á Íslandi, fólkið sem hefur „réttu skoðanirnar“ og „réttu viðhorfin“. Þær eru hins vegar alls ekki dæmigerðar fyrir alla íslensku þjóðina. En með sífelldri endurtekningu er reynt að telja fólki trú um að t.d. ákveðinn frambjóðandi sé „ótrúlega vinsæll“. Fjölmiðlar, eins og RUV, taka þátt í áróðrinum og birta niðurstöður algerlega gagnrýnislaust. Engin tilraun er heldur gerð til þess að greina hvað felist í meintum „vinsældum“. Í augum hverra er viðkomandi „vinsæll“?

Í markaðsvæddu þjóðfélagi er allt til sölu og pantaðar „vinsældir“ markaðsvara eins og hvað annað. Fjármunir einir og sér duga þó ekki. Frambjóðandi, t.d. til forseta Íslands, þarf að hafa stuðning valdaklíkunnar. Hún vill hafa aðila í forsetaembætti sem ekki er líklegur til þess að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar, heldur þjónar valdaklíkunni (t.d. með afskiptaleysi), er hallur undir Evrópusambandið og efnahagsstefnuna í Davos [WEF] og styður blindandi allar ákvarðanir stofnana Sameinuðu þjóðunum, s.s. frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunininni (e. World Health Organization, WHO) sem aftur er undir hæl alþjóðlegra lyfjafyrirtækja.

Að lokum

Það nær engri átt að kjósa fólk í embætti forseta Íslands sem leynt og ljóst hefur unnið gegn íslensku fullveldi. Þar er fólgin mikil mótsögn. Forseti er gæslumaður lýðveldis og fullveldis. Eiginleikar og afstaða þess sem kjörinn er hljóta ævinlega að miðast við það. Þar er fortíðin ólygnust, hvað menn sögðu og gerðu í fortíðinni. Loforð fólks sem kemur beint úr íslensku valdaklíkunni, eftir áralangt daður við WEF og ESB eru einskis virði.

Sumir nefna nauðsyn kosningaeftirlits. Aðrir telja of mikið gert úr þeim þætti og vilja fremur horfa til samhengis orða og athafna hjá frambjóðendum sjálfum. Skoða þyrfti sérstaklega þátt RUV í framboðinu. Það er nefnilega sláandi hversu undirgefin opinbera áróðursveitan, með RUV í broddi fylkingar, hefur lengi verið gagnvart málflutningi ráðherrans. Fjölmiðlafólk á að spyrja frambjóðandann gagnrýnna spurninga en gerir það ekki. Ástæður þess væri vert að rannsaka sérstaklega því slíkur er óheiðarleikinn og áróðurinn sem rekinn er fyrir því að gera fyrrum ráðherra að forseta.

Þjóðin sýndi það í þjóðaratkvæðagreiðslum vegna Icesave að hún getur vel

tekið skynsamlega afstöðu án þess að láta áróður valdaklíkunnar hafa áhrif á sig. Sambærilegri dómgreind þarf að beita í næstu forsetakosningum. Lykilspurningin er þá sú hvort viðkomandi frambjóðandi hefur talað fyrir málfrelsi, lýðræði og fullveldi í fortíðinni eða hvort hann hefur daðrað við Davos, markvisst rifið niður íslenskt lýðræði og fullveldi, ítrekað gengið á bak orða sinna, og jafnvel sýnt skort á háttprýði. Slíkt fólk á ekkert erindi í embætti forseta Íslands. Er þjóðin ekki búin að fá meira en nóg af Katrínu Jakobsdóttur? Er hennar tími ekki löngu liðinn? Góðar stundir!

 

 

[i]Til þess má t.d. nota Jamovi (https://www.jamovi.org/). Þetta frábæra tölfræðiforrit notar R sem undirstöðu.

[ii]https://twitter.com/wef/status/1066051399031668739?lang=en

[iii]Sbr. 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

[iv]Sjá t.d.: Vill engin tímamörk á fóstureyðingum. Morgunblaðið. 20. apríl 2024. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/20/vill_engin_timamork_a_fostureydingum/

[v]Sbr. 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

[vi]Pew Research Center. (2024, April 14). But what do the polls show? https://www.pewresearch.org/2009/10/14/but-what-do-the-polls-show/