Fara í efni

SEÐLABANKI Í SJÁLFHELDU

Sæll Ögmundur.
Hvaða áhrif hafa stýrivextir Seðalbanka Íslands?
Hér er svar mitt við þeirri spurningu.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa hverfandi áhrif á þann fjármagnskostnað lánakerfisins sem stjórnendur þess leitast við að endurheimta í mynd vaxtatekna.
Að þessu leyti eru áhrif stýrivaxta á útlánsvexti lánakerfisins nánast engin.
Hins vegar er það klókt hjá stjórnendum lánakerfisins að láta sem Seðlabankinn hafi erindi sem erfiði á sviði peningastjórnunar með stýrivöxtum.
Annars kynni svo að fara að Seðlabanki Íslands færi að beita stjórntækjum sem stæðu undir nafni að því er varðar áhrif á útlánaþenslu lánakerfisins.
T.d. útlánaþök fyrir einstakar einingar kerfisins og kerfið í heild.
Stýrivextir hafa engu hlutverki að gegna í slíkri útlánastjórnun og þyrftu því ekki að vera hærri en gerist og gengur í Evrópu og Bandaríkjunum.
Vandinn er hins vegar sá að Seðlabanki Íslands hefur komið sér í sjálfheldu:
Hávaxtastefna síðustu missera hefur hækkað gengi krónunnar langt umfram jafnvægisgengi og fært erlendum spákaupmönnum milljarðatugi í vaxtatekjur á svokallaðri carry trade.
Ef Seðlabanki Íslands sneri við blaðinu - lækkaði stýrivexti og tæki upp raunhæfa útlánastjórnun - þá myndi útstreymi gjaldeyris vegna carry trade orsaka stórfellda lækkun á gengi krónunnar.
Við þessu á Seðlabankinn ekkert ráð - enda liggur rót vandans í langvarandi vanhæfni hans á sviði peningastjórnunar.
Gunnar Tómasson