Fara í efni

Á BLANKSKÓM MEÐ HVÍTHJÁLM

Sæll Ögmundur.
Fyrirfram hefði maður búist við þrjátíu eða fjörutíu manns á Austurvelli, eða þeim fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna sem ráða yfir 90% aflaheimildanna í íslenskri lögsögu. Þeir urðu eitthvað fleiri. Kannske vegna þess að sá sjómaður, sem munstraður er á skip, gæti átt á hættu að vera vændur um tilraun til uppreisnar, ef honum dytti í hug að neita að fylgja skipun skipstjóra á bát. Brjóstumkennanlegt er það þegar skipstjóri ákveður að sigla inn til Reykjavíkur til að taka þátt í mótmælum á Austurvelli, en verra þegar óbreyttir sjómenn skipa sér undir gunnfána útgerðarauðvaldsins, skrifstofumannanna sem um langa hríð hafa fiskað hvað mest í bönkum landsins til svo að fá felldar niður á sig skuldirnar sem almenningur borgar fyrir rest. Þessa skrifstofumenn sem geta ekki hreyft sig spönn fra rassi öðru vísi en á Land Crusier jeppa á fimmtán eða tuttugu milljónir stykkið.
 
Margt skondið var að sjá í mótmælunum á Austurvelli. Þarna voru til dæmis hvítkollar áberandi. Hjálmklæddir sjómenn, sannkallaðir hvítliðar úthafsins. Menn á stoltu fleyi. Þeir stóðu þarna í fylkingarbrjósti. Aftast í mannmergðinni stóðu svo snyrtilega klæddir menn á jakkafötum, og blankskóm, sem öttu sjómönnum á foraðið. Þeir snyrtilegu voru ekki með hvíta hjálma. Þeir komu ekki siglandi á skipum sínum. Þeir lögðu stórum jeppum sínum í hæfilegu göngufæri svo þeir blotnuðu ekki í fæturna í rigningunni. Þá var skemmilegt að sjá samtökin Dögun sem gengu sýndist mér undir fána Kristjáníta í Kaupmannahöfn hver svo tilvísunin í þá er.
 
Tugmilljóna áróðurstríð útgerðarmanna flokkast sennilega undir kostnað við útgerð, sem borin er uppi af óskiptu, þannig að sjómenn sjálfir eða skattgreiðendur borga brúsann með einum eða öðrum hætti að lokum. 
 
Ögmundur. Ekki gefast upp. Það þarf að leggja þessa snyrtipinna auðvaldsins og láta útveginn greiða fyrir aðganginn að auðlindinni. Láttu ekki fílahjörð framsóknar eða þá sem ganga erinda íhaldsins í útvegnum villa ykkur sýn. Við erum margfalt fleiri sem erum hjálmlausir en hvíttkollarnir og mennirnir á blankskónum. Við erum mörg, þau eru fá. Það gildir til dæmis annað andrúmsloft í kjörklefa í þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann en þar sem skipstjórar ræða málin maður á mann í kristilegri upphafningu stórútgerðarinnar.
 Kveðja
Ólína