Á ekki að mótmæla öllum hryðjuverkum jafnt?
Telur þú að eigi að mótmæla hryðjuverkum í Ísrael framin af Palestínumönnum af sama krafti og einurð eins og gert er við hernaðar aðgerðum Ísraela? Jafnvel að heimta að þingið sendi ályktun og fordæmi þær árásir á saklausa borgara sem framin eru í Ísrael. Eru ekki þeir saklausu borgara sem falla þar eins mikils virði og þeir sem falla í Palestinu? Mér finnst þetta nefnilega alltaf bara vera í aðra áttina.
Jóhannes Eiríksson
Sæll
Þetta er góð spurning og hef ég velt henni mikið fyrir mér. Að sjálfsögðu eru morð og limlestingar alltaf hryllilegar og fordæmanlegar. Þú spyrð hins vegar hvort við sem þjóð eða ríki eigum að álykta á sama hátt gegn hryðjuverkum sem Palestínumenn fremja annars vegar og ísraelski herinn hins vegar. Svo ég drepi ekki spurningu þinni á dreif þá skal ég svara því vafningalaust að ég tel að við eigum að bera okkur öðru vísi að þegar við fordæmum þau ofbeldisverk sem framin eru af ríki en þau sem framin eru af vitstola einstaklingum. Auðvitað eru í röðum allra þjóða grimmdarseggir sem blómstra í ástandi á borð við það sem þarna ríkir. Þeir eiga enga samúð skilið. Það eiga hins vegar hinir sem hafa tapað öllu, ættingjum, tilverugrundvöllurinn brostinn og þeir eygja enga von, hafa enga framtíðarsýn. Ég geri hins vegar meiri kröfur til ríkisvalds; að þar ráði skynsemi og yfirvegun en ekki tilfinningaofsi. Ég hef gert tilraun til að svara þessu í blaðagreinum og gef hér netslóð fyrir eina þeirra. Einnig langar mig til að vísa á mjög umhugsunarverðar hugleiðingar Söru Roy, sem tengjast þessu viðfangsefni óbeint, sjá hér.