Fara í efni

Á ríkisstjórnina er ekki að stóla

Sæll Ögmundur

Ég hef verið að velta fyrir mér hver afstaða mín er til þeirrar framvindu sem kennaraverkfallið hefur lent í. Og ég hef komist að því að þessa þjóð sem við virðumst tilheyra skortir siðgæðisvitund og skynsemi. Þjóð sem ekki hefur efni á því að senda börn sín í skóla, en getur eytt peningum í tildur einsog virkjanir, sendiráð og friðargæslu, er þjóð sem er á villigötum. Og siðgæðismatið er lakara en hjá apaköttum þegar það er skoðað að enginn tekur á sig að bera ábyrgð á því sem er að gerast, menn taka ekki einusinni á sig að benda á blórabögla. Þegar skortur á siðgæði og skynsemi fer svo nálækt því að líkjast heiladauða þá er voðinn vís. Apakettir hafa það þó fyrir reglu að benda á þann veikasta sem sökudólg. Hjá okkur er það regla að allir eru stikkfrí - deilan er ekki einu sinni börnunum að kenna. Ég held því fram að þetta skelfilega ástand sé ríkisstjórn vorri að kenna og bendi góðfúslega á að þar á bæ er ekki að finna margan kollinn sem frægur er fyrir fágaða siðgæðisvitund og seint verða menn í þeim ranni sakaðir um skynsemi.

 

 

Á ríkisstjórn sem er svo óð

enginn skyldi stóla

hún lætur einsog íslensk þjóð

sem ekki fer í skóla.

 

 

Kristján Hreinsson, skáld

Heill og sæll.
Þakka þér hugleiðingarnar. Varðandi framvinduna í kennaradeilunni ætla ég að hafa sem fæst orð að sinni.
Kveðja,
Ögmundur