ÁBENDINGAR TIL VG FRÁ STUÐNINGSMANNI
27.02.2007
Ég er stuðningsmaður VG eða öllu heldur - ég hef verið stuðningsmaður VG. Sennilega verð ég það áfram því hjá ykkur eru þrátt fyrir allt skástu frambjóðendurnir og sumir hverjir mjög að mínu skapi. Þannig líkar mér vel verkalýðstónninn hjá þér Ögmundur þegar þú hvetur til þess að útrýma fátækt í landinu og þegar þú nánast einn stjórnmálamanna ert óhræddur við að vilja setja erki-kapítalistum landsins stólinn fyrir dyrnar.
En hver er breiddin í þessum flokki? Þarf maður að vera feministi og styðja andlýðræðislega löggjöf sem mér heyrist flokkurinn vera að boða? Má maður ekki styðja jöfnuð og jafnrétti, þar með kynjanna, án þess að þurfa jafnframt að undirgangast feminisma, nokkuð sem fæstir virðast skilja hvað þýðir nema ef vera skyldi að það sé sú árátta að þurfa að skilgreina allt það sem úrskeiðis fer, hvort sem er í eigin þjóðfélagi eða heiminum almennt, á þann veg að það sé runnið undan rifjum karlmanna. Eða hver er eiginlega meiningin með eftirfarandi í ályktun landsfundar VG um utanríkismál?: "Nauðsynlegt er að hverfa frá þeim karllæga heimi hernaðarhyggju og vígbúnaðar sem mannkynið hefur því miður verið fangi í."
Ég er því hræðilega marki brenndur (samkvæmt þessum lífsskilningi) að vera karlmaður. En ég hef barist gegn hernaðarhyggju allt mitt líf ásamt mörgum góðum félögum, körlum jafnt sem konum. Hvers vegna er þörf á að komast svona að orði? Hvert er markmiðið með þessu tali sem sundrar samstöðu kynjanna?
Ég tel mig vera vinstri mann og frjálslyndan í ofanálag. Rúmast frjálslyndir vinstri menn ekki lengur innan VG? Ég þykist heyra ákveðinn réttrúnaðarhljóm og mér finnst hann fara hækkandi. Vill flokkurinn ekki vera breiðfylking ólíkra einstaklinga sem eiga ýmislegt sameiginlegt – ekki endilega allt – en margt?
VG fær nú byr í seglin. Það finnst mér ágætt. En þið sem eruð í forsvari fyrir flokkinn skulið hugleiða að í mínum huga að það er ekki sjálfgefið að flokkurinn breikki þótt hann stækki. Það þarf ekki að vera samasem-merki þarna á milli. Ef svo fer að flokkurinn þrengist er hætt við að afleiðingin verði sú að hann smækki síðar meir.
Það væri slæmt fyrir íslenska pólitík og íslenskt samfélag. Ég vil VG allt hið besta. Þess vegna vil ég koma þessum ábendingum til ykkar. Það geri ég í fullri vinsemd – en af alvöruþunga.
Grímur H.
Þakka þér bréfið Grímur. Ég er ekki sammála því að við viljum "andlýðræðislega löggjöf" en þykist vita að þarna vísar þú í hugmyndir um lögbundinn, jafnvel stjórnarskrárbundinn kynjakvóta í stjórnum og ráðum. VG hefur sett fram róttækar hugmyndir í því efni og hefur greinilega tekist að rugga bátnum og er það vel að mínu viti. Hlutur kvenna í samfélaginu verður ekki réttur nema að vitundarvakning verði í samfélaginu um stöðu kvenna og mikilvægi þess að rétta hlut þeirra þannig að karlar og konur standi jafnfætis í samfélaginu á öllum sviðum.
Annars þakka ég þér hlý orð í bréfi þínu.
Kv. Ögmundur