AÐ GERA ÚT Á SJÚKLEIKA FÓLKS MEÐ SPILAVÍTISVÉLUM
Sæll, Ögmundur.
Það er gott til þess að vita að inni á Alþingi er maður sem lætur sig varða þá eymd sem spilafíkn kallar yfir fjölskyldur í landinu. Sem virkum spilafíkli fer það mest í taugarnar á mér þegar forsvarsmenn halda þeim þvættingi fram að stærstur hluti teknanna komi frá fólki sem setji 500-þúsundkall í kassana og láti það got heita. Sem einstaklingur sem spilað hefur í þessum kössum í langan tíma, mér og mínum nánustu til mikils skaða, get ég sagt með fullri vissu að a.m.k. 90 prósent þeirra peninga sem í spilakassa fara eru frá sjúku fólki sem lagt hefur fjárhag, og það sem verra er, geðheilsu sína og sinna nánustu í rúst. Ég geri mér grein fyrir því að raddir þeirra sem reka þessar vítisvélar verða alltaf sterkari en þeirra sem berjast gegn þeim. Samt verður að spyrna við fæti. Það er með ólíkindum að félög sem vinna gegn eymd kalla eymd yfir svo marga með fjáröflunarleiðum sínum. Takk fyrir.
Ágúst
Þakka þér miklu fremur fyrir þessa þörfu áminningu Ágúst. Ég mun láta orð þín verða mér hvatningu um að hreyfa enn við þessu máli. Auðvitað er það ekki boðlegt að Háskóli Íslands, Rauði krossinn og Landbjörg skuli nýta sér sjúkleika fólks með þessum hætti. Þessu verður að linna.
Kv.
Ögmundur