AÐ LOKA HAFNARFIRÐI - PENINGAAUSTUR ALCAN - ER ÞETTA LÝÐRÆÐI?
Þriggja spurninga vildi ég spyrja allra vinsamlegast þegar það eru tvær vikur í atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði:
1. Af hverju á að loka Hafnarfirði til suðurs með álmúr? En það er einmitt það sem gerist ef álverið verður stækkað. Þar með getur Hafnarfjörður ekki stækkað inn í framtíðina nema inn í landið, upp að Kaldárseli. Af hverju að fórna strandlengjunni og hraununum suður á bóginn fyrir álverið? Af hverju að tapa þróunarsamkeppni byggðarlaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir Gunnari Birgissyni? Til að þóknast álverinu? Enginn er að leggja til að loka álverinu en það má í allri vinsemd benda á að ef álverið væri ekki þá væri Hafnarfjörður óðfluga að búa sig undir áð að verða örugglega eins stór og Reykjavík. Er hægt að hugsa sér fallegra land á þessu svæði en Straumsvík og Óttarsstaði? Nú er þeirri leið lokað og hún verður endanlega harðlæst ef álverið stækkar enn meira. Líklegt er að álverið loki fyrir möguleikana á þróun byggðar sem teldi 20 til 30 þúsund manns.
Af hverju? Af hverju að stífla þróunarmöguleika Hafnarfjarðar enn frekar?
2. Af hverju fær hringurinn að spreða peningum um allt? Var ekki verið að setja reglur um hámarksgreiðslur stjórnmálaflokkanna i kosningaáróður? Var ekki verið að banna hverjum flokki að taka við stærri fjárhæð en 300.000 krónum? Hvernig má það þá vera að auðhringurinn fær að sáldra um sig gullinu eins og ekkert sé? Hafa menn séð heimasíðu hringsins straumsvik.is? Þar er meira safn af ósannindum og hálfkveðnum fegrunarvísum en nokkurs staðar annar staðar. Það er greinilega fjöldi manns í vinnu hjá hringnum sem GERIR EKKERT ANNAÐ EN AÐ REKA ÁRÓÐUR ÞESSA DAGANA. Ég hef engan fjölmiðlinn nema þennan séð nefna þetta svívirðilega siðleysi; hverju sætir það? Er það í lagi, Ögmundur, eða af hverju er þetta svona? Sljóleiki? Á að láta auðhringinn sigra í skjóli sljóleikans? Mér finnst að auðhringurinn ætti að sjá sóma sinn í að þegja og skammast sín og að leyfa Hafnfirðingum einum og í friði að ráða atkvæðagreiðslunni.
3. Er þetta lýðræði? Og loks: Er það lýðræði að sá sem efnir til atkvæðagreiðslunnar það er meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar komist upp með að hafa ekki skoðun? Hvernig liti það út ef Sjálftæðisflokkurinn nú í aðdraganda kosningann hefði ekki skoðun og segði: Ég ætla að sjá útkomuna úr kosningunum; þá segi ég ykkur hvað ég á að gera. Það er ekki lýðræðislegt að halda skoðun utan við kosningarnar. Kosningar eiga að snúast um skoðanir, viðhorf. Þeir einu sem hafa skoðun í Hafnarfirði til þessa eru: a) Vinstri grænir sem eru á móti stækkun álversins b) Sjálfstæðisflokkurinn sem er með stækkun álversins c) Samfylkingin utan Hafnarfjarðar sem er ýmist með eða á móti stækkun álversins og loks d) Alcan sem tröllríður hverju húsi i Hafnarfirði til að kaupa sér heimild til stækkunar. Er þetta lýðræði?
Sigurður Bjarnason