Fara í efni

AÐ RÁÐAST Á GARÐINN ÞAR SEM HANN ER LÆGSTUR

Sæll Ögmundur!
Satt best að segja er ég undrandi á þér og þínum félögum í ríkisstjórn að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Lífeyrisþegum átti að hlífa sögðuð þið öll í kór fyrir kosningar og strax eftir kosningar en nú viljið þið ekki einu sinni tala við samtök öryrkja öðruvísi en með tilvitnunum í erfitt árferði. Var betra árferði í janúar? Var betra árferði í mars? Hafa lífeyrisþegar fengið svo miklar hækkanir að þínu mati að nú séu þeir aflögufærir? Finnst þér eðlilegt að kjör aldraðra og öryrkja séu tekin útfyrir sviga og skert sérstaklega? Hafa þín laun lækkað? Hafa laun þingmanna lækkað? Aldrei hefði ég átt von á því að sá tími kæmi að þú stæðir bak aðför að kjörum lífeyrisþega. Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar gagnvart kjörum lífeyrisþega er ykkur til skammar og vansæmdar. Gefðu mér upp í hvaða banka ég lagt inn fé til stuðnings hæstlaunaða fólkinu svo það þurfi ekki að skammta við sig í mat eða öðrum nauðsynjum.
Með góðri kveðju,
Hafþór

Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Ég vek athygli þína á að reynt er að haga tímabundnum lækkunum í almannatryggingum á þann veg að lægsta fólkinu sé hlíft. Ekki gleyma að um tímabundna lækkun er að ræða. Reyndar er það svo - fyrst þú spyrð - að laun þingmanna hafa verið lækkuð. Sjálfur hef ég lækkað umtalsvert í ofanálag við að afsala mér ráðherralaunum og er ég nú með lægri tekjur en ég var með þegar ég var þingmaður. En ég skil reiði þína. Ég fullvissa þig um að allt eru þetta okkur þungbærar aðgerðir. En kemur dagur eftir þennan dag.
kv.,
Ögmundur