Fara í efni

Að skjóta og sprengja

Halldór Ásgrímsson verðandi forsætisráðherra segir að menn hljóti að styðja vini sína. Væntanlega á ráðherran við að annars sé vináttan bara plat og geta allir tekið undir það. Tilefni þessarar staðhæfingar eru athugasemdir fólks (sem er þá varla vinir vina sinna eða hvað?) við uppáskrift íslensku ríkisstjórnarinnar á innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Kenning ráðherrans er einföld: Við erum vinir Bandaríkjanna og hljótum að hjálpa þeim þegar á bjátar.
Bush segist sjálfur vera sannkristinn maður, fara reglulega í kirkju og má mikið vera ef hann fer ekki með bænir uppá hvurn dag áður en henn fer í rúmið um níuleytið á kvöldin. Forsetinn leggur reyndar svo mikla áherslu á trú sína að manni finnst hann hljóti að teljast ofurkristinn, gott ef ekki ofsatrúarmaður. Þrándur er náttúrulega ekki vel að sér í kristnum fræðum en þykist þó muna að fyrirgefningin sé ákaflega mikilvæg og eigi að vera lykilatriði í lífi sannkristins manns – ,,fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum” eins og þar stendur. Forseti Bandarikjanna, og gæjarnir sem í kringum hann eru, starfa aftur á móti eftir einkaútgáfu sinni af fyrirgefningunni, nema þeir hafi ruglast á testamentum, lesi fremur það gamla en nýja. Þeir segja sem svo: við skjótum hvern þann sem á hlut okkar gerir og til að vera vissir skjótum við fleiri en færri. Ef okkur grunar að einhver hafi í hyggju eða gera eitthvað af sér þá tökum við í lurginn á honum áður en hann lætur til skarar skríða – það heitir fyrirbyggjandi stríð.
Í stuttu máli sagt ræður hefndin ríkjum í Hvíta húsinu, en ekki fyrirgefningin. Svarið við hryðjuverkum er að skjóta og sprengja, en allt í ennþá stærri og dýrari skala og fylgja þá þúsundir með, sem ekkert hafa til saka unnið. Auk þess telja menn þar á bæ rétt að hefna áður en glæpur er framinn, ef grunur leikur á að til standi að fremja hann og þarf ekki að taka fram hver hefur sjálfdæmi um að meta grunsemdirnar. Fátækum þjóðum skal hefnt fyrir að banna ekki fóstureyðingar með því að neita þeim um fjárhagsaðstoð í baráttunni við eyðni, á sama tíma er ætlunin að moka út dollurum í áróður fyrir því að ungir Bandarikjamenn neiti sér um að gera hitt fyrr en á brúðkaupsnóttina. Á heimavelli skulu almennir borgarar hafa rétt til að bera skotvopn í öryggisskyni, því eins og allir vita er mikið ,,öryggi” fólgið í því að geta með góðri samvisku skotið þann sem abbast uppá mann. Eins og gefur að skilja kunna Bandaríkjamenn engin ráð til að stöðva harmleikinn í Palestínu. Þeim virðist ekki einu sinni detta í hug að stinga að Íslraelsmönnum (sem þeir borga herkostnaðinn fyrir) að rjúfa víxlverkun hefndanna – gera að minnsta kosti tilraun til að brjóta upp vítahringinn.
Samband íslenskra og bandarískra valdhafa er þannig að hinir íslensku geta ekki sagt við vini sína vestan hafs: bíðið nú aðeins við. Stríð er ekkert grín. Er nú ekki ómaksins vert að leita annarra leiða? Nei, þetta geta íslenskir valdhafar ekki sagt. ,,Vináttan” krefst hlýðni, leyfir engar efasemdir og kallar fram kostulegan hroka hjá forsætisráðherra á förum, eða sagði hann ekki eitthvað í þessa veru: Spánverjar eru skítseyði að kjósa yfir sig stjórn sem er á móti því sem vinir okkar vestra telja skynsamlegt – vona að það komi aldrei fyrir vora þjóð. Er ekki til annað orð yfir svona ,,vináttu”? 
Þrándur.