Fara í efni

AÐ VINNA Í FLOKKA-HAPPDRÆTTI

Nýlega hefur sú aðferð hefur rutt sér til rúms við valdhafaskipti að sá sem lætur af völdum er hundeltur og skotinn. Um þetta eru nokkur dæmi. Þá er þetta sýnt í fréttum svo öllum sé ljóst að sá gamli er úr leik og kemur aldrei til baka.
Ásetningurinn er sennilega góður. Múgurinn heimtar siðbót og réttlæti með heykvíslar og kyndla að vopni. Þetta er frekar ruddalegt kerfi en hefur trúlega verið mun lengur við lýði en þessi Vestræna lýðræðishefð sem við viljum trúa að einkenni okkar tilveru. Ég held að eitt einkenni þessarar lýðræðishefðar sé minnihlutavernd. Meirihlutinn má ekki leyfa sér allt sem hann getur. Nýir meirihlutar eiga undir venjulegum kringumstæðum ekki að neyta aflsmunar, hvorki með því að raða sínum mönnum á garðann eða beita sér gegn andstæðingum sínum. Flöktandi meirihlutar á þingi ættu ekki að ráða hverjir þurfa að verja sig fyrir dómstólum þann daginn.
Þetta hvarflar þó að manni þegar litið er til þess að þingið ákvað að draga einn mann til ábyrgðar fyrir hrunið. Sá var eðlilega ekki hluti af núverandi meirihluta, en þeir sem tilheyrðu honum unnu í nokkurskonar flokkahapprætti og fengu fyrirfram syndaaflausn.
Meirihluti á þingi notar þarna styrk sinn til þess að gera undanþágur fyrir eigin menn en staðsetja sökina vandlega annarstaðar. Þetta verður ekkert skárra þegar haft er í hgua að þeir sem greiddu atkvæði á þann veg að skapaði þessa niðurstöðu sátu í sömu ríkisstjórn. Þetta er eiginlega ekki verjandi. Enda hafa engar varnir verið færðar fram vegna þessa.
Sterkasta vörnin er að þetta hafi verið óvart og ófyrirsjáanlegt. Þingheimur virðist vera fórnarlamb óskiljanlegs kerfis við atkvæðagreiðslu þar sem allir leggja til heiðarleika, sterka siðferðiskennd og hreinleika hjartans. Niðurstaðan er samt eitthvað ógeð sem enginn pantaði. Þingmenn eru fórnarlömb í þessu öllu. Þetta er alls ekki þeim að kenna frekar en hrunið.
Hreinn