Fara í efni

ÆTLAR ÍSLENSKA RÍKISSTJÓRNIN AÐ TAKA ÞÁTT Í AÐFÖRINNI AÐ ÍRAN?

Komdu sæll Ögmundur.
Ég vil hrósa þér fyrir það sem þú sagðir í síðdegisútvarpi Rásar 2 nýlega um Íran. Það er alveg rétt hjá þér að menn ættu að láta staðar numið þegar Bandaríkin hóta því að beita kjarnorkuvopnum til þess að koma í veg fyrir að Íranir komi sér upp slíkum vopnum. Þetta er eitthvað sem allir ættu að velta fyrir sér og sjá kaldhæðnina í þessu rugli öllu saman. Íranir eru ekki að brjóta nein lög með því að auðga sér úran. Þeir hafa fullt leyfi til þess samkvæmt NPT - Sáttmálanum, en Íranir hafa einmitt undirritað þann sáttmála. Síðan segir Geir Haarde, hæstvirtur utanríkisráðherra, að koma þurfi ,,viti fyrir stjórnvöld í Íran". Eru menn hreinlega gengnir af göflunum? Ætla íslensk stjórnvöld virkilega að styðja Bandaríkjastjórn í þessu máli eftir allt sem á undan er gengið í Írak? Ég treysti því Ögmundur að Vinstri Grænir taki skýra afstöðu í þessu máli og tali harkalega gegn öllum áætlunum um að beita vopnavaldi gegn Íran. Að lokum vil ég segja að fólk ætti ekki að gleyma því að Íranir hafa ekki haft í hótunum við nokkurt ríki eins og margir fjölmiðlar hafa haldið fram síðustu misseri, heldur hafa þeir einungis sagt að þeir muni verja sig ef á þá verði ráðist. Eins og svo oft áður eru það aðeins Bandaríkin og Bretland sem hafa haft í hótunum og svo virðist sem íslensk stjórnvöld ætli enn og aftur að styðja hótanir vesturveldanna frekar en að tala fyrir því að komið verði fram við Írani á jafnréttisgrundvelli. Kveðja,
Sigurður Þ.

Komdu sæll og þakka þér fyrir bréfið Sigurður. Ég hef óskað eftir utandagskrárumræðu um þetta grafalvarlega mál á Alþingi og mun fylgja þeirri beiðni eftir þegar þing kemur saman að nýju um næstu mánaðamót.
Kv.
Ögmundur