Fara í efni

Af hverju beitir Framsóknarflokkurinn bolabrögðum?

Framsóknarmenn beita ómerkilegum aðferðum þessa dagana enda í vondum málum. Þeir tuddast gegn lýðræðilegri umræðu um stóriðjuáformin, ráðast á vísindamenn og reyna að gera lítið úr öllum sem andæfa þeim. Síðasta dæmið hér um mátti heyra og sjá í umræðum á Alþingi er Ísólfur Pálmason lýsti atvinnustefnu Vinstri grænna: “Hún er eitthvað á þessa leið: Við þurfum að gera eitthvað annað. Það er nákvæmlega það sem ég er farinn að trúa” sagði hann, að formaður Vinstri grænna “trúi því að við getum lifað á fjallagrösum og hundasúrum.” Vonandi þarf ekki að upplýsa framsóknarmenn um það að fjallagrasagrautur var um aldir borðaður til sveita bæði kvölds og morgna. Og hundasúrur voru kærkomin magafylling og einnig notaðar til að lina höfuðverk. En aðalatriðið eru ekki þessar staðreyndir heldur hitt, að með þessum ósmekklega málatilbúnaði eru framsóknarmenn fyrst og fremst að skjóta sjálfa sig í lappirnar.
Horfum um öxl og skoðum hvaða stefnu Framsóknarflokkurinn hefur lengstum boðið upp á í atvinnumálum. Langt fram eftir allri 20. öld hafði Framsóknarflokkurinn horn í síðu sjávarútvegs og þéttbýlismyndunar. Þjóðin átti að lifa og hrærast við venjubundin búskaparstörf, sjóinn mátti helst ekki sækja nema í hjáverkum á litlum bátsskeljum. Og hvað vildu framsóknarmenn gera við stríðsgróðann eftir heimsstyrjöldina síðari? Þeir vildu aðallega nota hann til að ræsa fram mýrar og byggja haughús ef mig misminnir ekki. En sem betur fer fengu þeir engu ráðið um ráðstöfun hans. Þegar svo ekkert varð við ráðið um sjálfsagða nýtingu landsmanna á aðalauðsprettu sinni og framsóknarmenn komust með klærnar í sjávarútvegsráðuneytið kringum 1980 var útvegurinn fljótlega hnepptur í fjötra. Hinu illræmda gjafakvótakerfi var komið á, smátt og smátt var hlaðið undir örfáa útvegsbændur, og sjávarbyggðirnar úti um landið voru sviptar sinni björg. Landbúnaðinn hafa framsóknarmenn einnig leikið grátt með áratuga forræðishyggju og læst velflesta bændur í spennitreyju fátæktar og stöðnunar. Og nú ætla þeir að bjarga öllu saman með einu álveri. Er trúverðugt að það takist? Nei, æ fleiri sjá að slíkt er í besta falli dýrkeyptur loddaraskapur. Landsbyggðin og þjóðin öll á betra skilið, hún þarf á allt öðru verklagi að halda. Landsmenn hafa ekkert með stóriðjustefnu Framsóknarflokksins að gera, ekki heldur ómerkilegan málflutning og útþvælda aulabrandara forystumanna hans. Óbreyttir framsóknarmenn geta ekki einu sinni brosað lengur. Þeir sjá að flokksforystan er orðin hrædd, málflutningur hennar er ekki mönnum bjóðandi, málstaður hennar er vondur.
Jón Árnason

Blessaður Jón.
Þetta er athyglisverð hugleiðing hjá þér Jón og undir það tek ég að málflutningur framsóknarmanna upp á síðkastið hefur ekki verið upp á marga fiska og ber svo sannarlega ekki vott um mikið sjálfsöryggi. Aulafyndni er bragð manns sem hefur ekkert að segja til að afvegaleiða áheyrendur og fjölmiðla og hugsuð til þess að komast hjá því að taka þátt í málefnalegri umræðu. Í stað þess að tala um arðsemi virkjunar, svo dæmi sé tekið, segirðu einfaldlega að andstæðingur þinn hljóti að borða hundasúrur. Þar með er málið afgreitt.
Kveðja,Ögmundur