Fara í efni

AF HVERJU HAFA MENN SKIPT UM SKOÐUN?!

Sæll kæri Ögmundur....
Það segir nokkuð um skoðun þína síðan að þú varðst ráðherra, hvað þú segir í pistlum þínum og hvaða lesendapistla þú birtir á vefsíðunni þinni. Því allir ritstjórar stjórna "eðlilega" því sem sagt er fjölmiðlum þeirra!  Við þekkjum þetta Ögmundur!
Fyrst segir þú " FORÐUMST ALHÆFINGAR - LÍKA UM DAVÍÐ! " síðan segir lesandinn Helgi að þegar ríkisstjórnin ákvað að losa sig við Davíð Seðlabankastjóra, þá “VÆRI VERIÐ AÐ ELTA RANGAN MANN” !  Mann sem er stór sekur á fjölda sviðum, sem er eins og hinir í bankanum vegna kunningsskapar, enda foringi Sjálfstæðisflokksmanna!
Síðan skal verja stjórnarskráarbrot og ósvífni Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, að ráða útlending í stöðu Seðlabankastjóra. Þá kemur Ólína fram á sviðið sem hefur skrifað mikið frá Danmörk, um skólaárin ykkar, kerlinguna upp á lofti, karlinn í kjallaranum og vinkonuna sem hún fær mjólkurlögg lánaða frá á hæðinni fyrir neðan. Nú er það hann Hans vinur hennar sem fór atvinnulaus til Íslands sem " EES borgari" til að vinna í fiski og telur því sjálfsagt að Svein Haraldur hinn Norski fái Seðlabankastöðuna á Íslandi! Hún spyr síðan "hvaða stjórnarskrá gildi um hana."  Hún býr í Danmörk og hún ætti bara að reyna að brjóta stjórnarskrá Dana. Þá fær hún örugglega að heyra hvaða stjórnarskrá gildir um hana!
Þetta bendir þó á það sem ég hef staglast á og var einu sinni skoðun þín Ögmundur, og fleirra, það er að við vorum þá heilshugar á móti inngöngunni í EES , en við vorum þvinguð þar inn með lygum og kjaftæði af einræðisstjórn Sjálfstæðisflokksins og hjálparflokks hans, án þess að þjóðin væri spurð!  Við vorum á móti inngöngunni í EES eins og við erum nú á móti ESB, vegna þess að það er bannað af stjórnarskrá vorri og þjóðlegum hagsmunum íslensku þjóðarinnar lífshættulegt! Við sáum afleiðinguna af inngöngunni í EES fyrir okkur fyrirfram, sem hefur nú komið fram, með gjaldþroti og martröð þjóðarinnar!
Ögmundur, ef við vorum andvígir EES þá, hvaða álit ættum við þá hafa nú á verunni í EES nú, þegar hin versta martröð hefur ræst?    Eins vorum við eindregið á móti einkavæðingunni, einkabarni Sjálfstæðisflokksins, með Davíð í fararbroddi sem skapaði jarðveginn fyrir fjárglæpamennina sem gerðu þjóðina gjaldþrota, sem byggðist jú á verunni í EES....   Afleiðingin er martröðin sem þjóðin lifir nú!
Hversvegna höfum við skipt um skoðun á þessum alþjóðastofnunum og markaðshyggju auðvaldsins?
Ég legg til að við göngum STRAX úr EES og segjum skilið við stjórnlausa einkavæðinguna,,, og stjórnum markaðskerfi og fjármálakerfi landsins!
Kveðja,
Úlfur

Sæll Úlfur og þakka þér bréfið. Sannast sagna hef ég ekki skipt um skoðun varðandi ESB. Það eina sem ég hef sagt - einsog ég hef reyndar alltaf gert, að það sé þjóðarinnar að gera þetta stórmál sem önnur upp í þjóðaratkvæðagreiðslu - það segi ég jafnt innan ríkisstjórnar sem utan. Ég barðist af alefli fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um EES á sínum tíma.
Þá get ég sagt þér að ég stend við hvert einasta orð í pistli mínu Forðumst Alhæfingar...sem þú vísar til. Ég hef gagnrýnt Davíð Oddsson í gegnum tíðina meira en flestir og geri enn sbr. nýlega Morgunblaðsgrein sem einnig er að finna hér á síðunni (Stærri en þjóðin). Mér hefur hins vegar þótt æði margir hafa haft hann fyrir rangri sök síðustu mánuðina í hlutverki hans sem seðlabankastjóra.
Hvað varðar ritstjórnarstefnuna hér á heimasíðunni, þá hefur birst lof og last um mínar áherslur. Ég hef aldrei reynt að forðast gagnrýni á mig og mínar áherslur nema síður sé. Ef ég hef ekki birt bréf þá er það yfirleitt vegna þess að ég hef ekki annað því þegar bréfin hafa borist að setja þau á síðuna, eða mikill fjöldi bréfa hefur borist og þau síðan helst úr lestinni. Það er ekki af slæmum ásetningi hjá mér. Það er meira segja frekar að þetta gerist gagnvart mönnum sem eru mér og mínum sjónarmiðum hliðhollir en öðrum.
Kv.
Ögmundur