Fara í efni

AF HVERJU VORU PÍRATAR, SAMFYLKING OG BF EKKI SPURÐ?

Það er alveg hárrétt sem þú segir hér á heimasíðu þinni að  orkumála-umræðan á Alþingi í vor var ekki um virkjanir heldur bara um formið, hvort ákvarðanirnar væru teknar á réttan hátt! Hvort þær væru í samræmi við Rammaáætlun sem er búin til utan þingsins!
Maður vissi aldrei hvort eða hvar Píratar vildu virkja eða Björt framtíð eða Samfylkingin. Þingmenn þessara flokka voru aldrei spurðir en greiddu að vísu (með einni undantekningu) atkvæði með Hvammsvirkjun sem er afstaða út af fyrir sig. En þar hafði „fagfólk" Rammaáætlunar gefið grænt ljós. En hvað með Urriðafoss, Skrokköldu og Hagavatn? Fyndist þingmönnum þessara flokka í lagi að virkja þarna ef fagfólk segði þeim að það væri í lagi einsog í tilviki Hvammsvirkjunar?
Virkjun á orku er ekki bara fagleg ákvörðun heldur líka pólitísk ákvörðun þar sem þarf að spyrja til hvers eigi að virkja og hvar eigi að virkja.
Fjölmiðlar horfðu á þingið hjakka í þessu fari í allt vor án þess að spyrja þingmennina hvort og þá hvar þeir vildu virkja. Er það ekkert undarlegt? 
Nábúi Þjórsár