Fara í efni

AFBORGANIR TAKI MIÐ AF GREIÐSLUGETU

Nýjar leiðir í húsnæðislánum eru nauðsynlegar Aðilar á vinnumarkaði eru að þrýsta á stjórnvöld, m.a. vegna nauðsynlegra aðgerða í húsnæðismálum. ASÍ vill skoða hugmyndir frá 1983 og er það gott. Almennt virðist fólk ekki átta sig á þeirri staðreynd, að vinstristjórn er algjörlega háð þessum aðilum. Það er að mörgu leyti ágætt en ekki á öllum sviðum. Það er skynsamlegt að dusta rykið af þessum gömlu hugmyndum um endurgreiðslur á húsnæðislánum. Það er auðvitað nauðsynlegt að rannsaka þessa hugmynd rækilega. En 1983 vorum við tveir til þrír í áhugamannahóp innan ASÍ að skoða leiðir sem áttu sér að nokkru rætur til aðferðafræðinnar sem notuð var í námslánunum. Við lögðum mikla vinnu í þessar hugmyndir. Þessum hugmyndum var sparkað út af borðinu af sérfræðingum bankanna, hagfræðingum og viðskiptafræðingum og atvinnurekendur tóku sér stöðu með þeim. Því varð ekkert úr því þá, aðilar vinnumarkaðarins legðu þessar tillögur fram 1983 þegar gerðir voru kjarasamningar þetta ár. Það var einmitt alveg ljóst að bankakerfið taldi sig tapa á þessu kerfi. En í ljós hafði komið við útreikninga að þessi leið var mjög áhugaverð til skoðunar. Það hefði verið frábært ef svona kerfi hefði verið við lýði þegar bankahrunið kom. Leiðin jafnaði a.m.k. lífskjör í landinu. Þau meginatriði sem lögð voru til grundvallar voru eftirfarandi: • Þær er aðeins hugmyndafræði um mismunandi lánstíma og ganga út frá því að allir einstaklingar sem fá slík lán, greiði sama hlutfall af heildartekjum sínum í afborganir og vexti. Þá var viðmiðið 30% af brúttótekjum (þetta viðmið var miðað við að venjulegt verkafólk myndi verða um 40 ár að greiða niður sín lán og þeir sem væru með meiri tekjur væru þá í hlutfalli fljótari að greiða upp sín lán) • þessar hugmyndir áttu þá við um opinber lán í raun og veru og út frá þeirri grunn-hugmynd, að ef einhver á rétt á félagslegu húsnæðisláni, eiga allir að eiga rétt á því. • Út frá skilgreiningunni um að öll opinber lán frá stofnun eins og Íbúðalánasjóði væru félagsleg lán. Enda gefur það auga leið að þau lán hljóta að vera ódýrari fyrir lántakandann. • Þá þurfa sumir langan lánstíma og aðrir stuttan. En í heildina stytti þetta lánstímann yfir línuna. Þ.e.a.s. þegar tekið var mið af 30% afborgunarhlutfalli og þá voru lán lægri en nú er. Þ.e.a.s. lægra hlutfall af íbúðarverði. • Vextir eru allt önnur breyta, en augljóslega gætu þeir verið í lágmarki vegna þess að þessi lán væru félagsleg eins og öll húsnæðislán voru þá. Annar kostur var að minna fjármagn yrði bundið í húsnæðislánum almennt, heldur en ef allir hefðu sama lánstíma. • Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér verulega aukinn jöfnuð milli fólks og raun yrði þá allt félagslegt húsnæðislánakerfi óþarft. Þá hefði slíkt kerfi innbyggt í sér þá aðlögunarhæfni sem þyrfti ef upp kæmi veikindi eða alvarlegt atvinnuleysi hjá fólki. Því ef tekjur lækkuðu hjá fólki lækkuðu afborganir í krónutölu. Þegar Þórólfur Matthíasson kynnti sínar hugmyndir á dögunum hrökk ég við, vegna þess að þarna voru nákvæmlega sömu hugmyndir á ferðinni og við höfðum skoðað 1983. En nauðsynlegt er að laga einnig öll viðmið varðandi verðtryggingar og miða verður við verðmæti fastaeignanna hverju sinni. Það er ekki flókið og við eigum vísitölu sem hægt er að nota með nokkrum breytingum til viðmiðunar. Það er síðan viðfangsefni stjórnmálanna að ákveða í hvaða hlutfalli af tekjum væri eðlilegt að endurgreiðslan væri og ekki ósennilegt að hlutfallið yrði að vera eitthvað lægra en við gerðum ráð fyrir forðum.
Kristbjörn Árnason