ÁFENGISMÁLIÐ!
Kæri Ögmundur....
Árátta Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og skoðanasystkina hans og siðferðisfélaga í eigin flokki og Samfylkingunni, um að áfengi eigi að vera sem mest á boðstólnum frammifyrir almenningi í landinu, minnir mig á annan sjálfstæðismann fyrir nokkrum árum, sem sagði á þá leið að við ættum að koma okkur upp drykkjukrám, ´pubs´ eins og tíðkuðust í útlöndum. Þar kæmi saman fólk og fengi sér bjór og aðrar sortir áfengis, rabbaði saman og kastaði jafnvel pílum í plötu á vegg, sem á framandi málum kallaðist að spila "darts". Hann sagði eins og Sigurður Kári að þetta væri framandi útlensk menning sem mundi virkilega bæta okkar eigin menningu. Á ´pubunum´ væri svo þægilegt og gaman að fólk mundi raunverulega neyta miklu minna áfengis því það væri svo upptekið við skemmtilegheitin.
Alþjóð veit að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók upp þennan sið allmörgum árum síðar þegar hún varð borgarstjóri Reykjavíku. Á skömmum tíma varð höfuðborgin alræmd knæpuborg jafnvel annáluð víðsvegar erlendis. Reykjavík vannst sá vafasami heiður að gerast “búlluborg norðursins.” Jafnvel flugfélögin notfærðu sér þetta og auglýstu með tvíræðum auglýsingum fargjöld til Íslands. Í auglýsingunum var því gefið undir fótinn að á Íslandi væru konur almennt lauslátar og eftirgefanlegar drósir. Vafasamar auglýsingar kölluðu á vafasamt fólk sem nú tók að flykkjast til landsins til að njóta sukks og saurlífis í Reykjavík. Síðan hefur þessi “merkilega útlenska menning” þróast í allsherjar skepnuskap og undið upp á sig með hjarðfylliríi og óeirðum á almannafæri. Fylgifiskarnir eru óþolandi ónæði fyrir friðsama borgarbúa og barsmíðar og skemmdir á eignum. Þess eru mörg dæmi að fólk geldur þessa ástands með örkumlun jafnvel með lífi sínu! Afleiðingarnar bitna á sjúkraþjónustu, tryggingum og löggæslu, fyrir utan skömmina og vesaldóminn sem kannski er alvarlegasta meinið tengt þessari niðurlægingu. Svo slæmt er þetta, að sagt er að lögreglumen miðbæjarlögreglustöðvarinnar hafi hreinlega flúið miðbæinn, og þeir loki sig inná Hverfisgötu við Hlemm, við tafl og kaffi. Hlemmur er þó síður en svo betri en hver annar staður í miðbænum. Miðaldra kunningi minn sagði að oft hafi verið ráðist á sig er hann fór á milli húsa eftir að skyggja tók, svo hann vogar sér orðið ekki útfyrir dyr óvopnaður þegar kvölda fer. Já, fyllibyttu-menningin frá útlandinu er ekki til fyrirmyndar frekar en annað þaðan, og á allsekki heima á Íslandi!
Sem betur fer hefur lögreglan gert mikið og þakkarvert átak í miðbænum til að skikka brjálaðan lýðinn þegar hann ráfar á milli knæpanna eða veltist um í ölæði eftir lokun en fólk gerir sér von um að varanleg bót verði ráðin á þessu ólíðandi ástandi. Vonandi mun lögreglan sjá til þess að á Hlemmi geti fólk staldrað við eftir strætó, óáreitt! Er til of mikils mælst?
Íslendingar kenna sjálfum sér um að drekka of mikið áfengi miðað við aðrar þjóðir, sem er ágætt, en sannleikurinn er sá að rannsóknir hafa leitt í ljós, að fyrir “menningar innlegg” R-listans hennar Ingibjargar Sólrúnar með búllunum sem spruttu þá upp eins og gorkúlur á mykjuskán í Reykjavík á þessum tíma, ásamt einkavinavæðingaræðinu sem Reykvíkingar fóru ekki varhluta af þrátt fyrir meinta "félagshyggjustjórn", þá kom í ljós að Íslendingar neyttu minna magns af áfengi miðað við fólksfjölda en nágrannaþjóðirnar, sem gæti skýrt hversu mikið ber á þeim sem ofneyta óþverrans, t.d. í réttum og á böllum! Ég hef grun um að í dag sé málið mikið verra en það var þá, en ekki mun það batna við að áfengi verði selt í matvöruverslununum!
Það eru litlar og visnar sálir á háttvirtu Alþingi íslensku þjóðarinnar sem eru nú að leitast við að taka einkasölu ríkisins á áfengi, sem veitir þá þjónustu látlaust með sóma og reyndar menningarbrag, (eins og Sigurbergur lýsti í bréfi sínu á vefsíðu Ögmundar, 18. 10. 07.) og afhenda hana einkaversluninni til að græða á. Fólk skal ekki efast um að einkaaðilinn mun gera ALLT til að græða sem mest á áfengissölunni ef hún verður gefin þeim. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að allt verður gert sem mögulegt er til að örva neysluna. Það liggur í augum uppi! Sumir hafa bent á að nú sé “Bónusríkisstjórnin” að launa eigendum sínum með því að veita þeim heimild til að fylla söluhillur sínar af áfengi, auðveldustu gróðavöru sem fyrirfinnst.
Það var furðulegt að heyra siðlausan málaflutning Sigurðar Kára Kristjánssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Kastljósinu á þriðjudaginn, þó ekki sé við öðru að búast úr þeirri átt. Sárgrætilegra var þó að verða vitni af slælegri frammistöðu Þórólfs Þórlindssonar, forstjóra Lýðheilsustöðvarinnar, sem er á háum launum hjá skattgreiðendum til að gæta og vernda þjóðina frá heilsuskemmandi siðleysi og úrkynjun, ásamt gjörræði pólitíkusanna. Þórólfur sagðist ekki vera á sama máli og flutningsmenn áfengisfrumvarpsins – persónulega! En svo var að skilja að stofnunin hefði á því skilning að við þyrftum að laga okkur að breyttum heimi. En erum við ekki að reyna að breyta heiminum til góðs? Var Lýðheilsustofnun ekki sett á laggirnar einmitt til að hafa góð og uppbygggileg áhrif? Eða var til hennar stofnað til að finna pólitískum vildarvinum starf? Ég leyfi mér að spyrja.
Úlfur