ÁLFTNESINGAR FÁI SANNGJARNA MEÐFERÐ
Þakka þér fyrir málefnalega og góða framsetningu á málefnum Álftnesinga á vefsíðunni. Áform þín um að taka upp umræðu um vanda sveitarfélaga á Alþingi eru vissulega tímabær og ánægjulegt til þess að hugsa ef það megnar að slá á þá frasakenndu fordæmingu sem hefur dunið á Sveitarfélaginu Álftanes frá því í ágúst á liðnu ári. Það er óskandi að umræðan og misjöfn staða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fari að snúast um það brýna verkefni að gera allt höfuðborgarsvæðið að einu skipulagssvæði, með sameiginlega hagsmuni í fyrirrúmi. Ég vil undirstrika að með hugtakinu hagsmuni á ég ekki aðeins við það sem er fært í bókhaldið. Í því sambandi er vert að vekja athygli á að mismunandi "leikkerfi" sem sveitarfélög nota til að taka á þörfum fyrir félagslegri þjónustu er ágætt dæmi um hvernig hagræða má málum til að bæta bókhaldslega afkomu íbúanna. Áform þín geta stuðlað að því að Álftnesingar fái sanngjarna meðferð og eðlilega aðkomu að ákvörðunartöku um framtíð síns samfélags.
Kristinn Guðmundsson