Fara í efni

Allir í bananastuði

Heill og sæll Ögmundur.
Mig dreymdi draum sem mig langar til að fá einhvern til að ráða. Mér fannst ég vera kominn á ríkisstjórnarfund. Allir ráðherrarnir voru mættir. Á enni hvers ráðherra var blátt merki. Það minnti mig á vörumerkið á Chiquita banönum. Á dagskrá ríkisstjórnarfundarins voru skattamál. Alcoa bar á góma. Rætt var um það hvernig ætti að skattleggja þetta fyrirtæki. Ráðherrarnir voru um það sammála að ráðlegt væri að leita erlendra fyrirmynda. Hvar ætti það að vera? spurði forsætisráðherrann. Væri ráð að leita til einhvers Mið-Ameríkuríkis? spurði utanríkisráðherra. Þar munu menn vera vanir því að eiga við alþjóðlega auðhringa. Þeir eru sagðir kunna á þeim tökin,  bætti hann við. Þetta þótti góð hugmynd og allir ráðherrarnir brostu nú út að eyrum. Við þetta þótti mér glampa á Ciquita merkin á ennum ráðherranna.

Nú spyr ég Ögmundur. Hvað þýðir þessi draumur? Skyldi hann boða góða bananauppskeru á komandi ári? Eða skyldi þetta vita á gott og sólríkt sumar eða er þetta einfaldlega  til marks um að bananastuð verði í landinu á komandi árum?
Kveðja, Haffi

 

Komdu sæll Haffi.

Þú gerir að gamni þínu og það finnst mér ágætt. Ég myndi draga þá ályktun af draumnum að jafnvel þótt bananar séu ágætir þá eigi það við um þá eins og aðra fæðu, að þeir eru fyrst og fremst ágætir í hófi. Hið sama gildir um mataræði manna og um atvinnulífið, að fjölbreytni er nauðsynleg. Ríkisstjórnin hefur hins vegar eins og við vitum heldur einhæfan smekk varðandi atvinnustefnuna. Þegar grannt er skoðað kann draumurinn að vara við því að við gerumst of einhæf í atvinnuháttum. Ég vona að þetta sé ekki fyrirboði um að stjórnvöld ætli nú þjóðinni að leggjast í stórfellda bananarækt. Það væri mjög óklókt en fyrir því fengist án efa samþykki stjórnarflokkanna á Alþingi og stórra aðila á vinnumarkaði. Þar er gagnrýnisþröskuldurinn ekki alltaf ýkja hár. Haft hefur verið á orði að Samtök atvinnulífsins myndu mæla með samyrkjubúskap í sovéskum anda ef ríkisstjórninni byði svo við að horfa. Eftir Kárahnjúkaumræðuna trúi ég þessu vel.
Kveðja,Ögmundur