Fara í efni

ALLT FYRIR ATKVÆÐIN?

Sæll. Á að fá atkvæði núna: Húsavík fegursti staður á jarðríki!!!!Mér finnst Mývatnssveitin falleg en ég er nú kannsi ekki hlutlaus þar. Ég bý ekki á Húsavík og það þarf að skapa störf fyrir fólkið sem er hér. Þau störf sem þú ert að óska / vona að verði til með stafstöðvum alþjóðlegra tölvufyrirtækja til dæmis eru ekki fyrir alla sem búa hér núna. Hvað með það fólk? Stór hluti þeirra sem vann í "Kísel" var og er verkafólk eða iðnaðarfólk. Gat bara ekki orðabundist.
kv.
Unnur

Þakka þér bréfið Unnur. Ég er ekki að reyna að haga málflutningi mínum til að ganga í augun á kjósendum. Ég er hins vegar að reyna að vinna mínum málstað fylgi. Og hver er hann? Mér finnst það vera ill örlög fyrir byggðarlag eins og Norðurþing að festast í þeirri hugsun að eina von inn í framtíðina liggi í risavaxinni álverksmiðju. Við erum að tala um lítið samfélag, þar sem ekki er atvinnuleysi en engu að síður þörf á atvinnuuppbyggingu til framtíðar. Við hjá VG höfum sett fram tillögur um stuðning við uppbyggingu slíkrar atvinnustarfsemi. Á Húsavík og byggðum öðrum á þessum slóðum hefur verið að þróast matvælaframleiðsla, ferðaiðnaður og annað sem mikilvægt er að hlú að. Á Suðrnesjum varð til nauðhugsun tengd hernum af svipuðum toga og álnauðhyggjan. Um áratugi máttu menn ekki heyra á brotthvarf hersins minnst. Svo fór herinn og þá var sem allt losnaði úr viðjum. Þessi álhyggja er hamlandi á svipaðan hátt. Hvað hugbúnaðarfyrirtækin snertir þá eru það orkufrekir vinnustaðir sem hugsanlega krefjast virkjana. Ég hef nefnt þá sem möguleika fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á að það kunna að vera í boði aðrir orkufrekir kostir en álverksmiðjur vilji menn á annað borð nýta orkuna. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að við eigum að fara okkur hægt þegar virkjanir eru annars vegar, vinna þar markvissar rannsóknir og í kjölfarið framkvæmdaáætlun í stað þess að láta tilviljanir ráða - að ekki sé minnst á þrýstinignn frá frekum álrisum. Sá þrýstingur á ekki að stýra för.
Með kveðju,
Ögmundur