ALLT STJÓRNAR-SKRÁNNI AÐ KENNA?
Þjóðarviljinn er að flestra mati vandmeðfarið hugtak. Það eru helst einræðisherrar eða aðrir sem telja sig hafa örlög og hagsmuni þjóðar sinnar í hendi sér sem taka sér orðið í munn og beita frjálslega. Aðrir beita orðinu sparlega. Ástæðan gæti verið ótti við að vera ruglað saman við fyrrnefnda hópinn.
Þó skoðanakönnun leiði í ljós að stór hluti þjóðarinnar borði fisk eða horfi á Kastljós er spurning hvort við séum einhverju bættari með að segja að þjóðarviljinn vilji fisk og Kastljós. Þá er líka stutt í að segja að þeir sem séu á annarri skoðun - um að borða fisk og horfa á Kastljós - gangi gegn þjóðarviljanum. Þá styttist enn í að það eigi að loka þetta lið inni í nafni þjóðarviljans. Þeir einu sem vísa til þjóðarviljans í dag eru þeir sem vilja samþykkja tiltekna útgáfu af nýrri stjórnarskrá. Allar aðrar hugmyndir - ekki bara efnislegar hugmyndir - heldur hugmyndir um að skoða frekar einhverja þætti eru sagðar ganga gegn þjóðarviljanum. Allt sem er ekki þegar komið fram í þeirra nafni gengur gegn þjóðarviljanum. Öll gagnrýni og ábendingar hafa þegar verið skoðaðar og er svarað með einhverju í líkingu við: „jú, við vorum búin að hugsa um þessa gagnrýni og taka tillit til hennar svo það er best að breyta í engu því sem við föttuðum upp á."
Maður spyr sig hvaðan þessi hópur fékk þessar háleitu hugmyndir um sjálfan sig. Umboðið er ekki mjög skýrt. Svo virðist sem áhugi á þessu stjórnarskrárverkefni sé einkum runninn undan rifjum Samfylkingarráðherra sem vildu kenna öðrum en sjálfum sér um hrunið. Ástæða hrunsins tengdist því ekki að Samfylkingin sat í stjórn. Ástæðan var sú að Samfylkingin sat í stjórn á meðan stjórnarskráin var gölluð. Svipað eins og þau hafi verið við stýrið á bremsulausum bíl. Reyndar hafa þau tekið það skýrt fram við mörg tækifæri að þau sátu bara í aftursætinu hjá Sjálfstæðisflokknum, en til öryggis er best að halda því til haga að bíllinn var bremsulaus - þau hefðu aldrei getað gert neitt þó þau hefðu reynt. Þannig hefur forsætisráðherrann hampað þessu stjórnarskrármáli í nokkur ár og klúðrað að ná um það nokkurri sátt.
Það er vandséð hvar þjóðarviljinn kemur inn í myndina. Var það á þjóðfundinum í Laugardalshöll þar sem það þurfti að þrábiðja fólk til að mæta? Mætingin í fyrsta úrtaki var minni en þriðjungur og um fjórðungur í varaúrtökum. Það er ekki hægt að útiloka að þetta jafngildi því að harðkjarnastuðningsmenn Jóhönnu hafi verið þeir einu sem höfðu trú á þessu. Eða var það í kosningunni til stjórnlagaráðs þar sem kosningaþátttaka var í sögulegu lágmarki?
Ekki er með góðu móti hægt að segja að þjóðin hafi fylkt sér um þann málatilbúnað.
Svo kaus þjóðin um nokkrar tillögur og þjóðarviljaliðið vildi túlka kosninguna þannig að engu mætti breyta í þeirra uppleggi í kjölfarið. Það hefur aldrei verið lagt upp með að skapa umræðu og sátt um málið. Bara að láta elítuna hafa vit fyrir þjóðinni. Sjálfsblekking þessa hóps sem valdist til starfa við gerð stjórnlagatillagna felst í því að þau séu með einhverjum hætti beintengd samvisku þjóðarinnar. Þau hafa eflaust kosið að tillögur þeirra hefðu fengið betra brautargengi og þau sjálf meiri upphefð. En að kenna því um að vondir menn hafi svikið þjóðarviljann er nokkuð langt seilst. Stjórnarskrármálið fuðraði upp fyrir löngu. Brunarústirnar hafa blasað við öllum á annað ár hið minnsta, en nú stendur yfir leit að brennuvörgum sem eiga að hafa borið eldinn að í síðustu viku.
Sæmundur H.P.