ALÞÝÐUFLOKKS/KOMMI SPYR: HVERS VEGNA FÁUM VIÐ EKKI AÐ HEYRA FRÉTTIR?
Ég hef fylgst með umræðunni á Alþingi undanfarna daga í sjónvarpsútsendingum og síðan fréttaflutningi í fjölmiðlum. Auðvitað er þingfréttariturum vorkun. Þeir verða að velja úr fjölda frétta. Mér þótti hið fréttnæma af Alþingi í dag vera uppgjör ykkar (okkar) Vinstri grænna við Samfylkinguna og Frjálynda sem lyppuðust niður sl fimmtudag og greiddu atkvæði með stjórnameirihlutanum um sérstaka flýtimeðferð á frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem heimilar Valgerði, álráðherra, að veita leyfi til orkurannsókna sem eru undanfari frekari virkjana og stóðriðjuframkvæmda. Þetta studdu Samfylking og Frjálslyndir og fengu að heyra orð í eyra frá ykkur á Alþingi í dag. Ekki orð um það í fréttum kvöldsins. Eru fréttamenn RÚV ekki í vinnunni eða eru þeir kannski allir í Samfylkingunni, það er að segja þeir sem ekki eru ráðnir af Heimdalli og Vöku? Hvers vegna fáum við ekki að heyra raunverulegar fréttir í "útvarpi allra landsmanna?" Ég verð að segja Ögmundur, að alveg er að undra að þú skulir nenna að verja þetta íhaldsútvarp og sjónvarp. Látum það gossa og hættum að borga afnotagjöldin. Ég er blanda af gömlum Alþýðuflokks/komma. Ég hef fram til þessa stutt Ríkisútvarpið af heilum hug. Sú tíð er liðin – eða er að líða. Þess vegna segi ég – leyfum Þorgerði Katrínu að veita náðarhöggið.
Gamall Alþýðuflokks/kommi
Ég skil vel hugrenningar þínar. Meðan Rúv er ennþá í eigu þjóðarinnar og í hennar forsjá er enn von. Við hlutafélagavæðingu, ef hún nær fram að ganga, breytist margt. Hugsanlega okkar stuðningur.
Ögmundur