Fara í efni

ALVÖRU VINSTRI STJÓRN RÆÐST EKKI Á ÖRYRKJA

Getur vinstri stjórn, sem vill láta taka sig alvarlega sem velferðarstjórn í anda norrænnar jafnaðarstefnu, byrjað á því að skerða kjör ellilífeyrisþega og öryrkja? Ég svara þeirri spurningu afdráttarlaust neitandi. Það væri hins vegar fróðlegt að fá þitt álit, Ögmundur. Ég hefi sjálfur notið örorkustyrks frá áramótum, en 1. júlí var hann skertur um þriðjung. Þó er ég áreiðanlega betur settur en margur annar, sem nýtur styrks frá Tryggingastofnun ríkisins.
Beztu kveðjur,
Sigurður Jón Ólafsson

Það er ofmælt að það hafi verið fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að skerða kjör ellilífeyrisþega og öryrkja. Hitt er rétt að þeir hafa sumir orðið fyrir talsverðri skerðingu. En það vil ég segja þér að þú ert ekki einn um þessar hugrenningar. Í ríkisstjórninni erum við mjög meðvituð um þetta og staðráðin í því að leita allra leiða til að verja þá sem búa við erfiðust kjör. Þegar upp verður staðið viljum við skila þessum hópum betri lífsafkomu en ekki lakari. Þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til vegna efnahagsþrenginganna - og hafa m.a. bitnað á almannatryggingakerfinu og heilbrigðiskerfinu - eru vonandi tímabundnar en ekki varnalegar. En ábendinfgar þínar og gagnrýni á rétt á sér.
Kv.
Ögmundur