Fara í efni

ANNARLEGAR GJAFIR AUÐVALDSINS!

Sæll Ögmundur...
Fyrir utan lítisvirðandi tal Björgólfs Guðmundssonar, Landsbankaeiganda um íslensku þjóðina og lýðræðið, þegar hann leyfir sér að segja að íslenska ríkið sé af hinu illa, þá spyr ég hvernig sé hægt yfirleitt að réttlæta “peningagjafir” auðvaldsins til hverskonar félagslegra stofnanna, hvað þá til  fjölmiðla og það í almannaeign, í ríkiseign?  Ég hreinlega skil þetta ekki! Og forsvarsmenn RÚV mæta á fréttamannafundi þar sem svívirðingarnar eru hafðar yfir. Fréttastofan "okkar" kynnir framtak Björgólfs og RÚV undir fyrirsögn um að ríkið sé versti eigandi fjölmiðils! Með öðrum orðum, undir níði um okkur sem eigum RÚV! Vottar ekki fyrir sjálfsvirðingu fyrir okkar hönd?

Einhverstaðar á hnattkringlunni væru slíkar “gjafir” taldar annarlegar svo ekki sé meira sagt.  Hvernig væri að þetta auðvaldsfólk væri látið greiða meiri og réttmætari skatta svo þjóðfélagið þyrfti ekki að lifa á ölmusugjöfum úr vasa þess; skatta af því sem það græðir á samfélags-systkinum sínum, sem þrælar myrkranna á milli, iðulega með heimili sín á vonarvöl, háð duttlungum þeirra sem ákveða verðlag og vexti en sem nú þykjast vera að “gefa” almenningi blóðpeninginn tilbaka! Mér rennur í skap.

Ef fólk heldur að auðvaldið “gefi” þjóðfélaginu peninga út í loftið og að ástæðulausu, þá er það meira en lítið galið. Ef góðmennskan væri það rík í hjörtum auðvaldsins, þá mundi það greiða umframpeningafúlgurnar sem það hefur ekkert við að gera, í almenna skatta til félagslegra þarfa þjóðfélagsins og fela Alþingi og lýðræðislega kosnum stjórnvöldum notkun peningana í þágu almennings! Nei. Þetta er fólkið sem krefst skattlækkana fyrir auðmenn. Jafnvel vilja þeir að "gjafirnar" veiti þeim sérstakan afslátt. Þetta fólk vill vald í eigin hendur; í hendur þeirra sem hafa auðinn á hendi. Þetta eru talsmenn auðvaldsins.

Einhvertíma hefði þessi skollaleikur og langavitleysa verið kallað að skemmta skrattanum!   Væri ekki meira vit að í staðin fyrir að sulla og bulla í sukkinu með útrétta lúkuna, að við hættum að gapa og góna á þetta lið og gera það sem þarf til að leiðrétta óréttlætið?

Hvað finnst þér, ég bara spyr Ögmundur........... ?
Úlfur

Ég er þér hjartanlega sammála Úlfur. Það þarf baráttu. Það þarf baráttu gegn valdi auðsins. Gegn auðvaldinu.
Ögmundur