ASÍ HEFUR EKKI MITT UMBOÐ Í EVRÓPUMÁLUM
Ég gekk niður Laugaveginn og var á Austurvelli í dag að hlusta á 1. maí ræður. BSRB fulltrúinn lagði áherslu á samstöðumál. Sama verður ekki sagt um forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson en svo átti að heita að hann talaði fyrir launafólk almennt. Gylfi sagði aðila vinnumarkaðarins sammála um að ríkið verði að axla sína ábyrgð á þróun efnahagsmála, "jafnvel þótt það kunni að kosta vinsældir stjórnmálamanna og flokka til skemmri tíma." Gylfi sagði að aðilar vinnumarkaðar væru tilbúnir í þessa vinnu. Ber svo að skilja að þetta séu hann og Vilhjálmur Egilsson? Eru það þeir sem eru tilbúnir í þessa vinnu? Hvað ætla þeir að fara að gera í ríkisrekstrinum sem verður svona óvinsælt, skera niður á Landspítalanum, loka skólum?
Svo kom öll romsan eina ferðina enn um að þeir Vihjálmur vildu ganga í Evrópusambandið til þess að lækka vexti, matvælaverð og ég veit ekki hvað. Gylfi Arnbjörnsson má tala fyrir sína hönd og Vihjálmur Egilsson má halda áfram að tala fyrir sína hönd og Verslunarráðsins einsog hann gerði árum saman. En þeir hafa ekki rétt á því að tala fyrir mig þegar kemur að niðurskurði í velferðarkerfinu og inngöngu í Evrópusambandið. Ég mætti ekki á Austurvöll í dag til að hlusta á svona tal í mínu nafni!
Í kvöldfréttum var svo Vilhjálmur mættur með sama textann og Gylfi, orðréttan heyrðist mér, um niðurskurðinn, stöðugleikann og ESB.
Jóel A.