ATHAFNIR Í STAÐ ORÐA
VEGNA GREINAR ÖGMUNDAR 21. JÚLÍ Þetta er gott og blessað hjá þér, Ögmundur, svo langt sem það nær - en það nær bara ekki nógu langt.
Sem þjóð BERUM við Íslendingar ÁBYRGÐ á svikunum við innistæðueigendur Icesavereikninga í útlöndum og VERÐUM að axla þá ábyrgð með einhverjum hætti. Ekki dugar að segja bara "Við borgum ekki - af því bara", því að með því segir Ísland sig úr siðuðum samskiptum við önnur lönd. Eina rétta leiðin er að gangast við kröfunum en biðja um frest á greiðslum á þeim forsendum að Icesave hafi verið fyrirtæki lögbrjóta sem naut stuðnings lögbrjóta í íslenska stjórnkerfinu: Fjármálaeftirlitsins, hugsanlega annarra embættismanna og mjög líklega alþingismanna. Íslenska ríkið standi illa undir hinum himinháu greiðslum og verði að sækja féð til þeirra sem frömdu glæpinn áður en það geti hafið greiðslur. En til þess að hægt sé að fara þessa leið verða þeir aðilar sem enn virka í stjórnkerfinu (óspilltir alþingismenn, ráðherrar, embættismenn) að skipta um gír hið snarasta og ganga í það af fullum krafti að koma lögum yfir það fólk sem hefur komið Íslandi í þessa hrikalegu stöðu. Því miður, miðað við frammistöðu stjórnkerfisins í þessu máli fram að þessu, virðist ekki mikill vilji til þess. Manni segir því hugur að spillingin í íslensku viðskiptalífi , íslenska bankakerfinu og íslenska stjórnkerfinu sé svo víðtæk og svo inngróin að aldrei verði ráðist almennilega í þetta réttlætisverk. Ef ekki verður vart við heiðarlegt lífsmark hjá sérstaka saksóknaraembættinu og sannleiksnefnd alþingis ALVEG Á NÆSTUNNI trúi ég að þessi verði raunin, því miður. Eftir mun sitja hnípin þjóð í skuldafjötrum, með sjálfsvirðingu í molum, brostið traust til sjálfrar sín - vegna þess að réttlætinu var aldrei fullnægt - og alþingismenn sem (í besta falli) TALA bara en GERA EKKERT. Ögmundur, þú ert beðinn um AÐ GERA eitthvað.
Keilir
Ég er þér sammála að Íslendingar eiga að axla ábyrgð í Icesave málinu. En ekki meira en okkur ber eins og Hollendingar og Bretar reyna að knýja okkur til.
Kv.,
Ögmundur