AUÐVALDSHÖLLIN
Sæll Ögmundur.
Ég þakka þér kærlega fyrir að umfjöllun þína um Fríkirkjuveg 11. Það ég best veit er ogmundur.is <http://ogmundur.is/> eini fjölmiðillinn sem birti yfirlýsingu mína. Björgólfsvaldið ræður greinilega yfir flestu sem það vill í fjölmiðlaheiminum og það er sérstaklega áberandi hvernig Fréttablaðinu er beitt til þöggunar og útúrsnúnings í þessu máli. Það er ekki auðvelt að koma rökum sínum á framfæri þegar gegn slíku ægivaldi er að farið en í Dagblaðinu í dag segir að auður Björgólfs Thors Björgólfssonar sé metinn á rúma 303 miljarða. Það er því ómetanlegt að geta leitað til ogmundur.is <http://ogmundur.is/> því sá fjölmiðill reynist svo sannarlega mikilvæg stoð lýðræðisins þegar ægivald auðvaldsins reynir að stjórna umræðunni.
Ps. Það er orðið nokkuð ljóst að Björgólfur Thor fær húsið en baráttan er þá um það sem út af stendur. Mörgum þykir yfirgangur auðmanna vera orðinn yfirþyrmandi og það á ekki eftir að batna.
Meðan Fríkirkjuvegur 11 var í eigu Templaranna hét húsið bindindishöllin. Á meðan á umræðunni um sölu hússins stóð á sínum tíma lögðu fulltrúar VG fram þá tillögu að húsið yrði gert að barnamenningarsetri og lá þá beint við að húsið yrði kallað barnahöllin. Nú þegar voldugasti fulltrúi fjármálafáveldisins á Íslandi fær húsið til eignar liggur náttúrulega beint við að kalla það auðvaldshöllina.
Með kveðju,
Þorleifur Gunnlaugsson
borgarfulltrúi