Auglýsingar og stjórnmál
Sæll Ögmundur og til lukku með þann árangur sem VG náðu. Mig langaði að spyrja út í þetta með auglýsingar sem hluta af kosningabaráttu, sem þið hafið gagnrýnt réttlætanlega að mínu mati. Er með einhverju móti hægt að koma í veg fyrir þetta þannig að réttlætanlegt verði og er ekki frekar áhyggjuefni að einhver hluti fólks gleypir við þessu frekar en að flokkarnir (mis)noti þá upplýsingaleið sem auglýsingar geta verið? Kveðja frá Kaupmannahöfn
Hörður G.
Sæll og blessaður Hörður.
Ég er sammála því sem mér finnst felast í þínu bréfi að auglýsing á að vera upplýsing. Ef auglýsingar eru heiðarlegar og upplýsandi þá er ekkert við þær að athuga. Það á í sjálfu sér einnig við um pólitískar auglýsingar. Fyrir kosningar þarf þó að gæta jafnræðis, eftir því sem kostur er, milli mjög fjársterkra flokka og annarra. Mér varð að umhugsunarefni að á milli umræðuþátta úr einstöklum kjördæmum á sjónvarpsstöðvunum voru pólitískar auglýsingar. Þáttastjórnendur kappkostuðu að allir fengju jafnan tíma í sjálfum þættinum en um leið og honum var lokið, kom aðkeypt hól um stjórnmálaflokka. Þær auglýsingar höfðu ekkert með upplýsingar að gera. Vonandi kallar þetta á umræðu um hvert við viljum stefna í þessum efnum. Mér finnst vel koma til greina að samkomulag verði gert um að pólitískar sjónvarpsauglýsingar verði ekki sýndar fyrir kosningar og að yfirleitt verði auglýsingum stillt í hóf. Grundvallaratriði er síðan að öll fjármál sem tengjast kosnigabaráttunni og reyndar öllu starfi flokkanna verði upp í borði.
Varðandi þær vangaveltur þínar að það ætti fyrst og fremst að vera okkur áhyggjuefni að fólk skuli gleypa við auglýsingum eins og margt bendir til að margir geri, þá er ég vissulega sammála þér um það. Hins vegar er það staðreynd að auglýsingar hafa áhrif á okkur öll - og er þar enginn undanskilinn. Máttur auglýsinganna er mikill. Sum okkar njóta hins vegar þeirra forréttinda að hafa verið bólusett fyrir tilteknum stjórnmálaflokkum og þess vegna erum við ónæm.
Kveðja,Ögmundur