Fara í efni

BAKLANDIÐ VAR GEIR

Marg blessaður og sæll Ögmundur.
Var að koma frá Spáni eftir fína dvöl með yngstu barnabörnunum. Á Spáni hitti ég konu sem eitt sinn fyrir allt of löngu síðan var grannkona mín í Vesturbænum.  Hún kom út strax eftir kosningar og var uppfull af því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að fara með Frjálslyndum í meirihluta í Reykjavík. Hún nafngreindi einhvern af stjórnendum Morgunblaðsins sem hafði sagt henni þessi tíðindi á kjördag og svo vitnaði hún í einhverja leiðara sem ég hafði alls ekki lesið.  Ég skellti á hana símtali þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók framsóknardrenginn upp í til sín og það stóð ekki á svörunum hjá vinkonunni. Hún hafði verið í sambandi við sitt fólk heima sem hún sagði að hefði upplýst sig um að öll plön hefðu hrunið daginn eftir kjördag. Þá hefði Halldór gert Geir H. Haarde grein fyrir því endanlega að hann vildi hætta, að Geir H. yrði að fara í forsætisráðherrann, Finnur í fjármálin sem utanþingsmaður og að Guðni Ágústsson myndi hætta sem varaformaður til að koma Finni að í það embætti. Í þessu sambandi sagði þessi fyrrum grannkona mín að Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir í borginni og Sjálfstæðisflokkur og Framsókn við landsstjórnvölinn væru barasta element sem ekki gengju upp. Villi athugaði svo baklandið, eins og hann kallaði það, sem voru skilaboð frá Geir um að gleyma Frjálslyndum og kippa framsóknardrengnum upp í til sín. Þannig skýrðum við þetta, gamlar vinkonur á Spáni, báðar með barnabörnin með okkur, og kallarnir heima. Þetta kostaði að vísu nokkur símtöl í flokksfélagið í Grafarvoginn en mér finnst þetta betri skýring hjá henni en til dæmis það sem ég var að lesa eftir einhvern dósent að norðan í Fréttablaðinu.
Kv.
Ólína