Fara í efni

BJÖRGÚLFUR THOR LOFAÐI BRETUM 200 MILLJÖRÐUM ÍSLENSKUM

Ég horfði á viðtal við Björgúld Thor Björgúlfsson í Kompási. Hef aldrei séð annan eins hrylling. Botnlaus ósvífni frá upphafi til enda.
Get ég komið með peninga? Nei,  svaraði hann sjálfum sér. Er sagður einn af ríkustu mönnum heims. Sölsaði undir sig eignir í miðborg Reykjavíkur í blóra við almenning og hefur hreykt sér um allan heim á kostnað Íslendinga og þykist nú þess umkominn að lesa Íslendingum lexíuna eftir að hafa lagt á þjóðina mörg hundruð miljarða króna. Til samanburðar skal þess getið að heildarrekstur ríkisins er upp á 450 miljarða króna. Í viðtalinu reyndi BB að kenna viðskiptaráðherra og fjármálaeftirlitinu um allt sem aflaga hefur farið og hann reyndi að hvítþvo sjálfan sig. Hann fullyrti að hann hefði engu ráðið um rekstur Landsbankans og reyndi að klína óþverranum á bankastjórana og föður sinn.
Í viðtalinu lagði hann áherslu á að hann hefði í einu og öllu hlýtt reglum hins evrópska efnahagssvæðis. Það er einmitt mikilvægur kjarni málsins; marglofað frjálst flæði fjármagnsins er grunnorsök vanda Íslendinga í dag.  Hann reyndi líka að kenna krónunni um vandann en hann er í þeim hópi sem hefur öskrað hæst um ónýta krónu en kórónan á viðtalinu var þegar hann upplýsti að Landsbankinn hefði lofað Bretum 200 milljónum punda- og að þeir hefðu orðið svona reiðir af því að Ísland stóð ekki við loforð Landsbankans. Þvílíkt; hann ætlaðist til þess að Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands hlýddu honum. Ég hef ekki séð bent á þetta fyrr: Að hann lofaði Bretum  500 milljónum evra  frá Íslendingum. Hann semsé lofaði þessu án umboðs frá nokkrum manni. Það var loforð Björgúlfs Thors sem gerði Brown brjálaðan þannig að hann beitti hryðuverkalögum á Íslendinga. Og hann segir: Það höfðu verið byggðar upp væntingar hjá Bretum og ég skil vel að þeir yrðu æfir af reiði. Gott að einhver skilur Gordon Brown. Er ekki nauðsynlegt  að rannsaka hlut Björgúlfs Thors í aðdraganda þessa máls?

Sigurður Bjarnason