BÖRN LÁTIN AUGLÝSA ÁFENGI
Sæll Ögmundur
Ég er hjartanlega sammála þessari auglýsingu, sem þú ert með á síðunni um að sniðganga áfengissala sem auglýsa áfengi þvert á landslög. Ábendingar Árna Guðmundssonar eru einnig hárréttar um að börn sem koma sér upp heimasíðum eru óafvitandi gerð að lögbrjótum. Þau fá ókeypis aðgang að vef vistunarkerfi gegn því að "eigandinn" , fyrirtækið folk.is eða íslenska bloggsamfélagið fái að setja inn auglýsinga-banner frá sér. Börn sem ritstjórar á sínum heimasíðum eru því gerð að lögbrjótum þegar "eigandinn" í raun sem þriðji aðili setur inn áfengisauglýsingar. Þetta nær meiri lágkúru en áður hefur mælst í viðleitni manna til að þverbrjóta lög um bann við áfengisauglýsingum. Árni Guðmundsson á lof skilið fyrir að benda á þetta.
Anna