Fara í efni

BRÉF ÓLÍNU OG EINAR ÞVERÆINGUR

Kæri Ögmundur ...

Hún er markviss greinin þín undir fyrirsögninni " http://rikiskaup.is/utbod/14559 "  og í tíma rituð. Hún lýsir mannkærleika auðvaldsins vel!

Ólína skrifar frábæran pistil á vefsíðunni þinni að vanda undir yfirskriftinni "ERU ENGIN VIÐURLÖG VIÐ ÞVÍ AÐ EYÐILEGGJA EFNAHAGSKERFI ÞJÓÐAR?"

Þar ritar hún meðal annars "Ætli það séu engin viðurlög við því að eyðileggja efnahagskerfi heillar þjóðar og smeygja vistarbandi sautjándu aldarinnar um háls nokkurra kynslóða fram í tímann með fimm hundruð milljarða risaláni? Og fjölmiðlarnir þegja, enda eiga þeir alla fjölmiðlana, ríkisvaldið og bakmenn bankakerfisins." Ólína bendir hér á að verið sé að fjötra þjóðina í sams konar ánauð og hún fékk að kynnast með illum afleiðingum fyrr á tíð. Þetta er svo sannarlega rétt hjá henni og það er eins gott að íslenskur almenningur átti sig á því!

Ég leyfi mér að segja hér frá sönnu dæmi sem gerðist að vísu nokkru síðar en á 17. öldinni - sennilega um 1890 - á Akranesi, í sjálfum Borgarfirðinum sem eru ættarstöðvar föðurættar minnar. Faðir minn og ég komum í heimsókn á bæ í Borgarfirðinum þar sem tvær háaldraðar konur voru viðstaddar. Þjóðlífið yfirleitt kom til umræðu. Konurnar tvær kvöddu sér hljóðs og sögðu eftirfarandi sanna sögu:

Þær voru á unga aldri, hluti stórrar þrælduglegrar fjölskyldu í Borgarfirðinum en faðir þeirra var sjómaður á báti frá Akranesi. Útgerðarfyrirtækið átti einnig verslunina sem sjómennirnir versluðu í uppá reikning, sem aldrei virtist greiðast upp þó það væri sjálfkrafa tekið af launum föður þeirra til greiðslu inná reikninginn. Eitt sinn þegar faðirinn var á sjónum, þá komu upplýsingar í land frá bátum sem komu af miðunum að það væri engan fisk að finna svo bátarnir yrðu lengur en ella í fiskileit á miðunum, en útlitið væri afar slæmt. Það skipti engum togum að útgerðarfyrirtækið lokaði matarreikningi fjölskyldunnar því ekki fannst þeim fyrirsjánalegt að það yrði borgað inná hann þar sem ekkert veiddist svo fjölskyldan fór að svelta. Þá komst sýslumaðurinn í málið og börnin voru öll skilyrðislaust boðin upp lægstbjóðenda sem ómagar, jafnvel út fyrir Borgarfjörðinn. Þetta var myndarleg fjölskylda svo útboðið gekk greiðlega fyrir sig, svo þegar faðirinn kom loks heim til sín var búið að leysa upp fjölskyldu hans vegna þess að það borgaði sig ekki að aðstoða hana og bjarga henni. Þessar konur sögðu með ekka og tárin í augunum að börnin hafi aldrei litið hvert annað fyrr en á háum aldri en þá hafi sum komið í leitirnar. Síðan sögðu þær ekki meir og aðrir urðu fámæltir og undirleitir.

En þetta er sú markaðsvæðing auðvaldsins sem verið er að innleiða á Íslandi í dag, eftir kraftaverk aldamótamannanna og brautryðjendur 20. aldarinnar. Það er eins gott að við Íslendingar áttum okkur á hvert nú er verið að stefna með einkavinagræðginni. Þú Ögmundur, varst einmitt að benda á í pistli þínum að verið væri að bjóða upp ósjálfbjarga fólk hér á Íslandi, nú á vorrum dögum, þá líklegast lægstbjóðanda eins og fyrri daginn, og lægsbjóðandi skal taka við ómögunum innan tveggja vikna! Hvers konar framkoma er þetta? Eins og þú Ögmundur, spyr ég: Hvað segja heiðvirðir Sjálfstæðismenn? Hvað segir Samfylkingarfólk sem segist vera félagslega þenkjandi? Hvað segja Íslendingar yfirleitt???  Hvenær á að segja stopp, hingað og ekki lengra?  Ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera það ótilneydd. Það er eins gott að fólk fari að hyggja að því hverja skuli kjósa í næstu alþingiskosningum!

Ég bið afsökunar ef þessi skrif mín eru orðin of löng, en mig langar að drepa hér nokkrum orðum á annað bráðalvarlegt dæmi, en það er að við erum stödd í sömu sporum og var í byrjun 11. aldar þegar jarðvegur Sturlunga aldar vart að skapast. Fólk veit hvað skeði þá síðar þegar ofstopi sérhyggju og græðgi varð til þess að vinir og vandamenn tóku að berast á banaspjótum,  launvíg, húsabrunar og hvers kyns voða-glæpir urðu nær daglegt brauð. Allt leyfðist: Allir aðrir en ÉG mega fara helvítis til, varð hugsunarhátturinn. Síðan skall Sturlunga öldin á sem endaði með því að þjóðin tapaði sjálfstæði sínu undir erlent vald Hákonar Noregskonungs. Íslendingar afsöluðu sér sjálfstæði og frelsi  í von um betri tíma. Íslensku þjóðarinnar beið hins vegar ánauð og vesöld um sex / sjö aldir, allt fram á daga feðra vorra og mæðra.  ( Óneitanlega minnir þetta á samtíðarmenn vora sem í angist og ráðaleysi horfir til EES, Schengen, NATO og ESB; fólkið sem leitar að einhverri patent galdralausn eftir að búið er að spila rassinn ú buxunum, helst án fyrirhafnar og að einhverjir aðrir bjargi okkur svo við getum haldið áfram að sóa og sukka!)  Á Sturlungaöld var Einar Þveræingur orðin þokukennd minning eins og hún er of mörgum á vorum dögum.

Ef við Íslendingar eru í þakkarskuld við nokkurn mann, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar í persónulegu og opinberu lífi, þá er það Einar Þveræingur. Vert væri að orð hans og heilræði væru rituð skýrum stöfum og gerð öllum skólabörnum landsins sýnileg öllum stundum svo og þingmönnum. Þau ættu að blasa við yfir stól forseta Alþingis. Það væri vel ef andi hans og afstaða væri öllum stjórnmálamönnum Íslands eiginleg að eilífu!  Þeir stjórnmálamenn sem ekki standa vörð um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar - þeir sem ekki gæta að sjálfu fjöregginu - eru þess ekki verðugir að að setja okkur lög og fara með forræði í málefnum þjóðarinnar. Svo einfalt er það í mínum huga!

Með kveðju,
Úlfur