BRÉF ÚR STOFU-FANGELSI
Sæll Ögmundur.
það ber að þakka það sem vel er gert og lýsi ég ánægju minni með frumvarpi um fyrningu gjaldþrota skulda. þetta er svo sannarlega skref í rétta átt, en þó þarf að hafa það í huga að hér er verið að tala um 2 ár eftir að skiptum er lokið, ég var orðinn fjárhagslega stopp í lok árs 1998, lýstur gjaldþrota 2001 skiptum lauk ekki fyrr en 2006 ( í rauninni fáránlegt hvað þetta tók langan tíma miðað við það að allan þennan tíma var ég bæði eignalaus og atvinnulaus) - ef hlutirnir eru eins og í mínu tilfelli þá er verið að tala hér um 7-10 ára ferli.
Mig langar að benda á hlut sem þú veist eflaust um en ef ekki þá gæti það orðið til þess að bæta stöðu þeirra sem verða gjaldþrota lítillega í viðbót, en það snýst um hvort ekki sé rétt að setja lögmönnum tímamörk á vinnuna sem skiptin eiga að taka. Höfuðstóll gjaldþrotsins sem ég fór í gegnum var tæpar 5 milljónir, heildarskuld með kostnaði rúmar 10, og enn er ég í fjárhagslegu stofufangelsi vegna þessa. -
Ég spyr einnig hvernig er það með mann eins og mig, nú er ég öryrki ( bein afleiðing gjaldþrotsins ) er lýstur gjaldþrota 2001 - skiptum lýkur 2006 mun ég að einhverju leyti njóta góðs af þessu frumvarpi? eða er ég dæmdur til lífstíðar stofufangavistar í þessu samfélagi ? Annað sem mig langar til að benda á er að samhliða þessu mætti setja fyrningu á vanskilaskrá, annað hvort samtímis eða kannski 2 árum seinna.
kveðja,
Steinar Immanúel Sörensson, stofufangi í íslensku samfélagi vegna gjaldþrots sem á rætur að rekja til þekkingarleysis. ( ábyrgðin að öllu leyti mín.) En á mér þann draum að verða nýtur samfélagsþegn með tíð og tíma.
Heill og sæll. Og þakka þér mjög gott bréf með afar þörfum og mikilvægum ábendingum sem komið verður áfram við vinnslu frumvarpsins. Hitt vil ég taka undir með þér að vanskilaskráin getur verið engu minni útlegðardómur ef henni er endalaust haldið yfir mönnum. Markmiðið sem þú nefnir í lokaorðum þínum tek ég heils hugar undir. Þá á að gilda um alla sem misst hafa fótanna hvort sem það er af misskilningi eða vegna gjaldþrots sem hent getur fullkomlega heiðvirt fólk, fjölskyldur og fyrirtæki.
Ögmundur Jónasson