BYGGT Á SAMA GRUNNI?
Erlendur bankamaður sagði eitt sinn um bólur að hraðinn dræpi engan heldur yrðu menn fyrir skaða sem stöðvuðu mjög snögglega. Viðskiptaráðherra virðist hrifinn af svona hundalógík því í ræðu sem hann hélt nýlega í Háskólanum kom hann með eigin útgáfu sem hljóðar nokkurn veginn þannig að vandi Íslendinga í dag sé ekki tilkominn "vegna hrunsins heldur vegna bólunnar (sem orskakaði hrunið)". Þessi orð ráðherrans eru mjög upplýsandi fyrir umræðuna sem á sér stað á landinu þessa dagana. Ég held þetta sé það sem kallist einnar breytu vísindi þar sem menn fá svo mikla þægindatilfinningu af því að trúa á tiltekið orsakasamhengi að menn gæta sín á að líta alls ekki á heildarmyndina. En svo má auðvitað túlka orð ráðherrans með öðrum hætti. Var hann ekki að segja að þeir sem skópu forsendur fyrir bólunni eru hinir raunverulegu skaðvaldar? Örsökin er því ofurskuldsetning hagkerfisins, innstreymi fjármagns venga vaxtastefnu sem enn er við lýði, of hátt gengi með tilheyrandi bjögun á velsældartilfinningu, ríkisstyrkt þensla á húsnæðismarkaði og vegna virkjanaframkvæmda. Orsökin er dægurvinsældakeppni stjórnmálamanna sem neituðu að stíga á bremsuna tímanlega. Þetta skot kemur við alla þá sem hafa gegnt ráðherradómi frá 2003 til 2008. Allir sem sátu í ríkisstjórnum þar sem mjúkri lendingu var lofað en stöðugt var gefið í. Eðlilega þarf Gylfi að orða þetta kurteislega því sumir þeirra sem ættu að taka þessar sneiðar til sín sitja með honum í ríkisstjórn og virðast vera að byggja nýja Ísland upp á grunni sömu lögmála.
Árni V.