Davíð, Halldór og yfirlýsingarnar
Ég veit ekki hvor er skrautlegri í yfirlýsingum þessa dagana, Davíð Oddsson, Sjálfstæðisflokki eða Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki. Báðir hafa keppst við að tala fyrir sölu Símans. Valgerður Sverrisdóttir og Hjálmar Árnason birtust á síðum dagblaða um daginn og gátu vart beðið eftir stóra deginum, þegar þjóðin afsalaði sér eign á Landssíma Íslands. Ekki virðast allir framsóknarmenn hafa fagnað jafn ákaft, alla vega ekki kjósendur flokksins í dreifðum byggðum landsins. Nú þykist Framsókn hafa sett einhver skilyrði fyrir sölunni varðandi grunnnetið. Davíð vísar þessu á bug í fjölmiðlum en segir að söluandvirði Símans megi nota til uppbyggingar dreifikerfisins! En hvers vegna ekki nota hagnaðinn sem rennur stríðum straumum í ríkissjóð til áframhaldandi uppbyggingar á Símanum? Ætlar landslýður virkilega að láta þessa loddara komast upp með að selja eða gefa frá okkur allar mjólkurkýr þjóðarinnar en láta okkur skattborgara síðan sitja uppi með allt sem óarðbært er en þó félagslega nauðsynlegt eins og fjármögnun dreifikerfisins á strjálbýlum svæðum? Sjá menn ekki að þessi ríkisstjórn er ekki að þjóna hagsmunum þjóðarinnar heldur hagsmunum fjárgróðamanna sem geta ekki beðið eftir að komast yfir allt sem arðbært er í eigu þjóðarinnar?
Og áfram varðandi yfirlýsingar þeirra félaga. Halldór Ásgrímsson hefur blásið nokkuð um Evrópusambandið að undanförnu. Við vitum hvar við höfum Davíð Oddsson í því efni. Ekki verður hið sama sagt um Halldór Ásgrímsson. Hann sveiflast fram og til baka í gömlum stíl Framsóknasrflokksins – já, já- nei, nei. Nú skyndilega er þessi mikli áhugamaður um aðild Íslands að Evrópusambandinu kominn með einhverja bakþanka. Eða hvað? Er það aftur stóllinn sem truflar? Það gæti jú ruggað stjórnarsamstarfinu að ýfa Evrópumálin mikið upp. Og þá er forsætisráðherrastóllinn kominn í hættu.
Sunna Sara