DAVÍÐ IN MEMORIAN
30.09.2005
Við á Snotru höfum verið að ræða hvort Davíð Oddsson verði ekki settur í flokk “frelsishetjanna” Thatcers og Reagans. Öll eiga þau það sameiginlegt að auka frelsi hinna ríku til að kúga þá fátæku og gera þá ríku ríkari, selja eigur fólksins til þess að hægt verði að selja okkur þær aftur. (Járnbrautir, raforkurkefi banka og síma).
Eftir sitjum við með lág laun og fátækt. 100 þúsund kr. laun standa ekki undir kostnaði við húsnæði, klæði og fæði, hvað þá annað. Til þess að lifa á verkafólk ekki annarra kosta völ en vinna óhóflega yfirvinnu.
Á meðan er ekki hægt að opna blað nema fjallað sé um ástir og afbrýði hinna ríku. Þar er ekki talað um þúsund kalla heldur tugi og hundruð milljóna króna eða dollara. Þessi mannskapur lítur á milljón sem vasapening. Eitt er þetta fólk hjartanlega sammála um – og getur meira að segja talað sig upp í talsverðan hita - og það er að ekki megi hækka lægstu launin. Þá sé voðinn vís, þensla og óðaverðbólga. Þetta þjóðfélag hefur Íhaldið verið að smíða fyrst með Krötum og síðan Framsókn síðustu fjórtán árin. Skyldi Davíð vera stoltur af þessari pólitísku arfleifð sinni? Á Snotru þykir þetta nú ekki vera til að hrópa húrra fyrir. Alla vega ekki ferfalt, einsog við höfum heyrt hljóma í fjölmiðlunum undanfarna daga.
Runki frá Snotru