Delapsus resurgam
Sæll Ögmundur.
Sálfræði stjórnmálanna er jafn undarleg og margbrotin og flækjurnar sem oft liggja að baki góðu ljóði, jafnvel miðopnusálmi. Oftar en ekki verðum að grafa djúpt í hauginn til að sjá samhengi, ná meiningunni, eða öðlast skilning á því sem er að gerast í stjórnmálunum eða í höfði valdsins og af því við vitum að valdníðslan gæti bitnað á okkur leitum við skýringa og tjáuum okkur í hliðstæðu, Hliðstæðurnar verða þannig tækin til að geta grafið og tjáð sig.
Wanna be a boss
I wanna be a big boss
I wanna boss the world around
I wanna be the biggest boss
that ever bossed the world around
Textinn frá áttunda áratugnum. Sennilega frá þeim tíma að fráfarandi forsætisráðherra var að stíga sín fyrstu skref í fyrsta alvöru starfi sínu hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Textinn gæti gefið innsýn í sálfræði þess valds sem birst hefur okkur undanfarnar vikur og í raun og veru er hann svo skemmtilega nærri okkur í tímanum þessi gamli dægulagatexti. Hvað segirðu um þennan part Ögmundur?
Everyone's going to be free
But they'll have to agree to be free
They'll have to agree to be less free than me
'Cos I rule the world you see
Eða ættum við að færa okkur yfir í Gamla testamentið, Míka? Kannski sækir fráfarandi forsætisráðherra leiðsögn sína einmitt í Míka. “Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.” (Míka 2:2) Eru ekki hlutverkin klár? Þeir eru baugsfeðgar og húsbóndinn hann sjálfur, Skerjafjarðarjarlinn. Og það er meiri fróðleik að finna í Míka. Viðbrögð forsætisráðherra við því valdi og þeim auði sem safnast hefur á fárra, en umfram allt á skakkar, hendur hafa verið þannig að lýsingu á þeim er líka að finna í Míka. “Ég vil eyða skurðmyndum þínum og merkissteinum, þeim er hjá þér eru, og þú skalt ekki framar falla fram fyrir verkum handa þinna. Ég vil brjóta niður aséur þínar og eyðileggja guðalíknesi þín og ég vil með reiði og gremi hefnast á þjóðunum, er eigi hafa hlýðnast.”(Míka 5:12) Hér talar Drottinn almáttugur.
En hvernig eigum við að skilja viðbrögð hans síðustu vikurnar? Steinn sagði eitthvað á þá leið að í draumunum fælist fall okkar og veikleikar, en það eru engir draumar tengdir því að láta frá sér forsætisráðherrastól – miklu fremur martraðir. Bíddu hægur. Getur verið að viðbrögðin megi rekja til atburða haustsins, eða hræðslunnar við styrk forseta lýðveldisins? Eða er svarsins kannski líka að leit í Míka? Er það ekki einmitt í Míka (7:8) og dægurlagatextanum sem hér var vísað til sem skýringin liggur, langsótt og flókin: Delapsus resurgam.
Ólína