Fara í efni

DOFRI, VG OG UMHVERFISSTEFNAN

Ég hlustaði á morgunspjall á RÚV um heima og geima. Margt var ágætt sagt í þeim þætti. Ég held ég hafi náð því rétt að einn viðmælenda hafi verið Dofri Hermannsson, einn af forsvarsmönnum Samfylkingarinnar, frambjóðandi, gott ef ekki starfsmaður. Hann var ágætur í þessum þætti fyrir sinn hatt nema að einu leyti og það nokkuð stóru. Hann sagði að það sem nú hefði gerst með kynningu á umhverfisstefnu Samfylkingarinnar væri að nú væri loksins komin stefna í íslenska umhverfispólitík! Hann sagði að VG hefði verið með ýmsar hugmyndir en það hefði skort á að bent hefði verið á leiðir til að framkvæma.
Einhverjar skýringar hljóta að vera á því að Dofri Hermannsson heldur fram þessum undarlegu og ósönnu staðhæfingum.  
Í fyrsta lagi kann að vera að hann vilji reyna að gera lítið úr baráttu VG á þessu sviði og hefja þannig Samfylkinguna upp á kostnað VG eða hvers vegna myndi hann vilja gera lítið úr þeim ótölulega fjölda þingmála flokksins sem marka skýra pólitíska stefnu Vinstri grænna í umhverfismálum.
Í öðru lagi að hann sé sleginn blindu á orð og athafnir eigin flokks, sem óneitnalega er mjög mótsagnakenndur og tvístígandi þegar kemur að umhverfismálum, þótt á endanum hafi hann jafnan hallað sér að stóriðjustefnunni. Í þriðja lagi að Dofri telji sig vera að vinna vinnuna sína fyrir Samfylkinguna og að dagskipun þar á bæ sé að telja umhverfisssinna á að snúa sér fremur að Samfylkingunni en VG.
Auðvitað er hverjum einstaklingi frjálst að kjósa eins og hugurinn stendur til. Það er hins vegar ekki heiðarlegur málflutningur að gefa til kynna að Samfylkingin sé fyrst og síðast umhverfisverndarflokkur sem setji þá stefnu í forgang. Svo hefur ekki verið og ef dæma skal af yfirlýsingum aðskiljanlegra þingmanna Samfylkingarinnar að undanförnu verður ekki séð að flokkurinn hafi fundið hina skýru stefnu í umhverfismálum sem Dofri Hermannsson gumar af. Það er vissulega fagnaðarefni ef Samfylkingin ætlar að leggja aukna áherslu á umhverfismál. Þegar talsmenn hennar fjalla um stefnu VG er hins vegar vinsamlegast mælst til þess að farið sé með rétt mál.
Sjálfur var ég á sínum tíma fylgismaður Samfylkingarinnar og trúði á fagurgalann um hina umhverfisvænu stefnu. Eftir atkvæðagreiðsluna um Kárahnjúka ákvað ég að ég myndi ekki framar láta sannfærast af fögrum orðum. Eftirleiðis yrðu stjórnmálamenn að sýna mér hug sinn í verki. Síðan hef ég fylgt VG að málum og líkar það vel. Þar er stefnan skýr.  
Umhverfisvænn félagi í VG