VG ræðumenn voru bestir í umræðunum á Alþingi í gær. Framsókn má þó eiga að hún var bráðskemmtileg einsog þegar Bjarni Harðarson benti á að afleitt væri að breyta þyrfti almanntryggingakerfi landsmanna fyrir þá sök eina að Ásta Ragnheiður skildi ekki kerfið. Ekki var Guðni síður góður þegar hann skaut á sérfræðing í málefnum Þingvallarurriðans, dr. Össur Skarphéðinsson, hæstvirtan iðnaðarráðherra, sem gjarnan brygði sér í gervi stjórnarandstæðings þegar kvöldaði. Í næturhúmi sæti bloggarinn dr. Össur og skyti út og suður - og ekki alltaf óvægið – jafnvel á ábúendur í Stjórnarráði Íslands. Nokkuð smellin tilvísun í dr. Jekyll and mr. Hyde í frægum enskum reyfara. Prik til Guðna. Þó verð ég að segja að ekki er með öllu illt að nefndur sérfræðingur í kynlífi urriðans, ráðherra iðnaðarins, skuli vaðrveita manneskjuna í sjálfum sér og leyfa sér að hafa skoðun – hvort sem er morguns eða kvölds og hvar sem er. Ekki kem ég auga á neitt hrópandi ósamræmi í orð og athöfn ráðherrans og bloggarans. Ef eitthvað er þá vildi ég flytja mr. Blogg yfir í Stjórnarráðið fremur en að dr. Össur verði kæfður í kröfunni um að mönnum beri að verða gráir og rykfallnir þegar þeir taka sæti í ráðherrastól. Þess vegna segfi ég: Áfram mr. Blogg!
Grímur