DREGUR ÚR EFTIRSPURN NEMA Á RÚV
Ekki er það nú launungarmál að fjölmiðlar á Íslandi sem og annars staðar á Vesturlöndum voru gjörsamlega gagnrýnislausir á þann óhefta kapítalisma sem hér réði ríkjum fyrir það hrun sem við blasir núna. Gagnrýni á óhefta einkavæðingu og stórkostlega tilfærslu almannavalds til einkaaðila var iðulega afgreidd sem jaðarsjónarmið. Allar frjálshyggju kreddurnar sem hér einkenndu umræðuna voru viðmið fjölmiðla í umfjöllun þeirra en lítt grafist fyrir um forsendur þeirra. Nú þegar þetta viðmið er hrunið og nánast allir fæddir í nýjum heimi er ekki úr vegi að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir grafist fyrir um orsakir hrunsins. Í þessu ljósi var það ákaflega erfitt að skilja hvers vegna Kastljósið valdi Björn Inga Hrafnsson í viðtal fyrir fáeinum kvöldum til að tala um væringarnar og hrunið. Eins og alþjóð veit að þá var Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, sem er einn af þeim stjórnmálamönnum er ber stjórnmálalega ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Ekki er nóg með það heldur háði Björn Ingi einhverja dýrustu kosningabaráttu sem háð hefur verið á sveitarstjórnarstigi til að komast í borgarstjórn Reykjavíkur. Oft er talað um að 20 milljónir hafi verið á bak við hvert prósent sem hann fékk. Og hverjir skyldu nú hafa reitt fram þá aura? Voru það kannski sömu aðilar og fengu Búnaðarbankann gefins frá Framsóknarflokknum á sínum tíma? Var það þakkargjörðin? Allavega vantaði ekki að Björn Ingi væri í kringum peningavaldið enda þáði hann líka ferðir til útlanda með útrásarvíkingunum. Í gegnum góðærið var stanslaust oframboð af mönnum eins og Birni Inga. Heldur hefur dregið úr eftirspurninni með nýjustu tíðindum – nema þá í sjónvarpi allra landsmanna, Rúv.
Hugrún