Fara í efni

DROTTNINGAR KOMNAR Á KREIK

Ekki brást ríkisstjórnarsjónvarpið ohf sínu fólki í kvöld. Drottningarviðtalið við forsætisráðherra á sínum stað, honum strokið með hárunum eins og litlum kettlingi og leyft að mala um hlutina án þess að minnsta tilraun væri gerð til að spyrja gagnrýnna spurninga, hvað þá fylgja einhverju eftir. (Gaman væri að vita hvort Páll hefur skutlað honum heim á eftir í fína bílnum). Geir var orðinn svo gjörsamlega týndur að þjóðin var farinn að gera um það brandara og þá er rokið til og drifið upp viðtal. Ég man ekki eftir einum einasta stjórnarandstæðingi í kastljósinu í háa herrans tíð en mörgum væmnum þáttum með ráðherrunum. Aldrei eru þessir menn látnir mæta einhverjum andstæðingi sem gæti tekið þá í gegn. Mér sýnist ríkisstjórnarsjónvarpið vera að sanna endanlega þjónkun sína við valdhafana þessar vikurnar og kannski yfirmennirnir séu að tjá þakklæti sitt í leiðinni fyrir nýja launaumhverfið. Skítt að þurfa að viðurkenna að stöð 2 er miklu krítískari á málin og talar oftar við stjórnarandstæðinga og lætur þá fá sömu meðhöndlun og ráðherrana en ekki sérmeðferð eins og ríkissjónvarpið með sín ráðherra-drottningarviðtöl. Ég er hissa á því ef þjóðin lætur bjóða sér þetta endalaust og skora á fólk að láta til sín heyra.
Jónatan